Lögregla tilkynni grun um brot strax

Þau börn sem vistuð eru á vegum barnaverndaryfirvalda eru viðkvæmur …
Þau börn sem vistuð eru á vegum barnaverndaryfirvalda eru viðkvæmur hópur. Oft er um að ræða börn með lítið bakland og sem jafnvel koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum. mbl.is/ Heiðar Kristjánsson

Barnavernd Reykjavíkur kannast ekki við að hafa fengið tilkynningar vegna starfsmanns skammtímavistheimilis, sem nú sætir gæsluvarðhalds vegna gruns um kynferðisbrot gegn börnum, fyrr en í janúar á þessu ári.

Fjöl­miðar hafa í dag greint frá því að maður­inn, sem er á fimmtugsaldri, hafi verið kærður til lögreglu fyr­ir kyn­ferðis­brot gagn­vart barni 2013. Þá hef­ur mbl.is það einnig eft­ir heim­ild­um að maður­inn hafi árið 2008 verið til­kynnt­ur til Barna­vernd­ar Reykja­vík­ur og Fé­lagsþjón­ust­unn­ar vegna gruns um að hafa brotið gegn börn­um.

„Ég kannast ekki við það og get fullyrt að það bárust engar upplýsingar til okkar árið 2013 og að starfsmenn hér kannast ekki við að hafa tekið símtal eða fengið upplýsingar,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur.

Árin 2008-2010,hafi starfsemin sem þar sem maður vann hins vegar ekki heyrt undir Barnavernd. „Þannig að ég veit ekki hvaða boðleiðir hafa verið þá, eða hvort að þær hafi mögulega misfarist. Þetta er þó að sjálfsögðu tilefni til að skoða slíka hluti,“ segir hún. Hvorki hún sjálf, né Sigurður Hólm sem hefur verið yfirmaður mannsins frá 2010 kannist hins vegar við að hafa fengið inn sitt borð athugasemdir vegna mannsins.

 Miður sín vegna málsins

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og erum verulega miður okkar með að það skuli koma upp svona alvarlegar grunsemdir gagnvart starfsmanni sem vinnur hér með börnum og sem er búin að vinna með ungu fólki og börnum í 20 ár,“ segir Halldóra.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur þann 18. janúar á þessu ári um kæra hefði borist vegna brota sem maðurinn á að hafa framið á árunum 2004-2010 gegn dreng sem hann var þá stuðningsfulltrúi fyrir. Maðurinn var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald 19. janúar, en kæran barst lögreglu í ágúst á síðasta ári. Rannsókn hófst hins vegar ekki fyrr en í upphafi þessa árs.

Halldóra segir Barnavernd Reykjavíkur hafa átt gott samstarf við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölda mála sem barnaverndaryfirvöld hafi átt aðkomu að og svo hafi einnig verið nú eftir að barnaverndaryfirvöldum var tilkynnt um málið. „Við munum þó að sjálfsögðu taka upp samtal við lögregluna um mikilvægi þess að haft sé samband við okkur, eða aðra vinnuveitendur, þegar upp koma kynferðisbrotamál þar sem viðkomandi er að vinna með börnum. Í slíkum tilfellum er afskaplega mikilvægt að vinnuveitandi þess sem svona grunur beinist að fái að vita það sem fyrst.“

Viðkvæmur hópur með lítið bakland

Halldóra nefnir að hvað Barnavernd varði þá séu þau börn sem verið sé að vista á þeirra vegum sérlega viðkvæmur hópur. Oft sé um að ræða börn með lítið bakland og sem jafnvel komi úr erfiðum uppeldisaðstæðum. „Við erum jafnvel að taka þau úr aðstæðum þar sem þau hafa jafnvel orðið fyrir ofbeldi,“ segir hún. „Eða þá að foreldrar eru að trúa okkur fyrir  þessum börnum til að hjálpa þeim út í lífið. Þessu mál eru flókin og viðkvæm og það er mjög mikilvægt að það verði engar tafir á því að tilkynna okkur sé minnsti grunur um afbrot.“

Halldóra D. Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur. Barnavernd vinnur nú að …
Halldóra D. Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur. Barnavernd vinnur nú að því að senda öllum sem hafa dvalið á vistheimilum þar sem maðurinn hefur starfað bréf.

Halldóra segir barnavernd enn ekki vita til þess að maðurinn hafi misnotað börn á þeim vistheimilum þar sem hann starfaði. „Þetta virðist vera fólk sem tengist honum með öðrum leiðum sem hefur verið að kæra,“ segir hún.

Barnavernd vinnur engu að síður nú að því að senda öllum fullorðnum einstaklingum sem hafa dvalið á vistheimilum þar sem maðurinn hefur starfað bréf, þar sem þeim er boðið viðtal í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Einnig verður haft samband í gegnum forráðamenn við þá sem enn teljast á barnsaldri, þ.e. hafa ekki náð 18 ára aldri.

Halldóra segir um 250 bréf verða send og að þau fyrstu fari væntanlega út í dag eða á morgun. „Þetta eru rúmlega 200 fullorðnir einstaklingar og rúmlega 30 einstaklingar sem enn eru á barnsaldri.

Við verðum svo bara að sjá hvað kemur út úr þessari rannsókn okkar sem er bara rétt að byrja.“  

Fjölga starfsfólki ef allar línur glóa

Bréfið er orðað þannig að þeir sem telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi, telja sig hafa orðið vitni að ofbeldi, eða sem líður illa af einhverjum sökum vegna þessa máls eru hvattir til að hafa samband.

Hún segir Barnavernd ekki eiga von á að allir þeir sem fá bréfið sent hafi samband, en að reynist þörf fyrir hendi þá verði virkjuð viðbragðsáætlun og starfsmönnum Bjarkarhlíðar fjölgað. „Ef allar línur glóa og þörf reynist á, þá munum við gera það sem þarf til að sinna þessum hópi.“

Nálgunin gagnvart þeim sem enn eru á barnsaldri verður þó önnur. „Þeim samtölum verður væntanlega beint beint til Barnaverndar. Forráðamenn þurfa að vera upplýstir og við munum hafa aðeins þéttari nálgun,“ segir hún og kveðst reikna með að jafnvel verði reynt að fá sérfræðinga til að ræða við börnin.

Spurð hvort að mál mannsins kalli á einhverjar breytingar á vaktafyrirkomulagi vistheimila segir hún það verða skoðað. Maðurinn var fyrst og fremst á næturvöktum og var þá einn með börnunum og sagði Sigurður Hólm, sem var yfirmaður mannsins á vistheimilinu, í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann væri þeirrar skoðunar að tveir ættu að vera á næturvakt í stað eins nú.

Skoða hvernig bæta megi skimun starfsfólks

„Einu skiptin sem einhver er einn á vakt eru 4-5 klukkutímar á nóttu, sem er alveg eitthvað sem þarf að skoða. Það á þá hins vegar við afskaplega mikið af starfsemi sviðsins,“ segir Halldóra. Mörg sambýli, heimili og stuðningsheimili séu enn í dag rekin með sama sniði og var þegar meint brot mannsins áttu sér stað. „Þá er einstaklingur sem býr með ungmennum,“ segir hún.  

„Við munum að sjálfsögðu spegla alla þætti í okkar starfsemi með tilliti til þess að öryggi verði eins mikið og kostur er á.“ Skoða þurfi hvort hægt sé að tryggja að ekki sé einn á vakt og sömuleiðis þurfi að skoða fyrirkomulag varðandi tilsjónarmenn og persónulega ráðgjafa. „Ættum við alltaf að hafa tvo þar líka,“ spyr hún.

Þá þurfi að skoða hvernig bæta megi skimun þeirra sem ráðnir eru til að starfa með börnum hvetja þurfi börn til að vera tilbúnari að greina frá því verði þau fyrir áreiti. „Það er raunar að gerast í meira og meira mæli. Ég held að umræðan sem er búin að vera, til dæmis í tengslum við Höfum hátt og MeToo, muni hjálpa okkur til að breyta viðhorfi barna, unglinga og raunar allra í samfélaginu gagnvart því að láta vita.“ 

Þeir sem ráðnir eru til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum í dag þurfa að undirrita eyðublað þar sem þeir samþykkja að upplýsinga sé aflað um þá úr sakaskrá. Halldóra segir þetta fela ísér meira en hreint sakavottorð. Þar inni eru m.a. skráð ofbeldismál fimm ár aftur í tímann og kynferðisofbeldi. „Þetta eru þau gögn sem allir sem vinna á sviðinu þurfa að skila inn og ég held raunar að það sama eigi við um skóla- og frístundasvið og eiginlega alla sem vinna með börnum í Reykjavík.“

Starfsumsóknir starfsmanna barnaverndar séu líka skoðaðar mjög ítarlega og haft samband við fyrri vinnuveitendur og leitað eftir umsögnum og meðmælum.

„Í þessu tilfelli, er hins vegar um að ræða einstakling sem byrjar mjög ungur að vinna og á sér þá væntanlega ekki mikla forsögu frá fyrri vinnustað. Hann er svo bara að vinna hjá borginni og hefur verið að vinna með börnum gott sem alla sína starfsævi.“

Þetta verði núna allt tekið til skoðunar, sem og skimunarferlið. „Við getum kannski ekki vantreyst öllum alltaf, en hvort að hægt sé að vera með betri skimanir er nokkuð sem við munum leggjast yfir og kortleggja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert