Sævar Þór Jónsson, lögmaður, segist vita um tíu einstaklinga sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi karlmanns á fimmtugsaldri sem situr nú í gæsluvarðhaldi, grunaður um gróf kynferðisbrot gagnvart ungum dreng. Maðurinn er núverandi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur.
„Ég veit um allt í allt tíu aðila,“ sagði Sævar Þór í kvöldfréttum Rúv, en hann er réttargæslumaður drengsins sem maðurinn er grunaður um að hafa brotið á.
Líkt og fram hefur komið var kæran lögð fram í ágúst en ekki tekið til umfjöllunar fyrr en í janúar, fimm mánuðum síðar. Sævar Þór hafði þá margítrekað kæruna og óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins hjá lögreglu. Fyrirspurnum hans var hins vegar aldrei svarað.
„Þetta er náttúrulega ekki fullnægjandi fyrir aðila sem lenda í slíku að menn séu ekki að sinna vinnunni sinni. Það gefur augaleið að þegar börn eiga í hlut eiga menn að grípa til skilvirkari aðgerða en gert var,“ sagði Sævar Þór í viðtali í kvöldfréttum Rúv.
Sævar sagði einnig að hann hafi gert lögreglunni viðvart að maðurinn hefði starfað með börnum við skýrslutöku í desember.
Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á föstudag.