Lögreglustjóri kannast ekki við að ítrekanir hafi borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í haust vegna kæru í garðs karlmanns á fimmtugsaldri sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á meintum kynferðisbrotum hans gegn börnum. Maðurinn hefur um áratugaskeið starfað með börnum og unglingum hjá Reykjavíkurborg.
„Við erum ekki með upplýsingar um [ítrekanirnar], en erum að fara yfir málið núna,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Spurð hvort að ekki fari fram grunnskoðun á þeim kærum sem lögreglu berast segir hún svo vera. „Það er alltaf farið í gegnum málið og því forgangsraðað,“ segir Sigríður Björk og kveður framkvæmda svonefnda kærugreiningu, en gagnrýnt hefur verið að að rannsókn hafi ekki hafist fyrr en í upphafi þessa árs þó að kæran hafi borist lögreglu í ágúst á síðasta ári.
„Kæran kemur inn í ágúst, þá eru 7 ár liðin frá síðasta broti og það er stíf forgangsröðun hjá okkur.“
„Við munum meta hvernig upphaflega bréfið kom inn og hvort að okkar fyrstu viðbrögð hafi verið rétt. Það virðist ekki vera og þá þurfum við að vega og meta hvers vegna það var ekki,“ segir Sigríður Björk. „Var hægt að skilja bréfið einhvern veginn öðruvísi? Við erum að fara yfir þetta og snúa öllu við.“
Málinu hafi verið úthlutað og gerð rannsóknaráætlun að lokinni grunnskoðun, það hafi síðan ekki komið í ljós fyrr en hafist var handa við að rannsaka brotið í janúar að hinn meinti gerandi var starfsmaður barnaverndar. Sjálfri hafi sér fyrst verið kunnugt um málið 18. janúar sl.
„Þá er farið í þessar aðgerðir,“ segir hún, en maðurinn var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfar húsleitar og barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um málið.“ Ekki var endilega krafist gæsluvarðhalds í málum sem þessum á árum áður, en Sigríður Björk segir það hafa breyst. „Alltaf þegar við tryggjum rannsóknarhagsmuni þá förum við fram á gæsluvarðhald,“ segir hún.
Sjálf líti hún málið mjög alvarlegum augum. „Og gerði strax 18. janúar þegar okkur barst vitneskja um það. Þá fórum við strax af stað af fullum þunga. Síðan höfum við verið að skoða málið bæði hér innanhúss og með barnaverndaryfirvöldum.“
Fjölmiðar hafa í dag greint frá því að maðurinn hafi áður verið kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart barni. Þá hefur mbl.is það einnig eftir heimildum að maðurinn hafi árið 2008 verið tilkynntur til Barnaverndar Reykjavíkur og Félagsþjónustunnar vegna gruns um að hafa brotið gegn börnum.
Lögregluyfirvöld muni líka fara ítarlega yfir sína verkferla í kjölfar þess. „Við þurfum að fara yfir allt. Við erum að gera greinagerð í málinu, erum að snúa öllu við og þurfum að takmarka tjónið eins og hægt er,“ segir hún. „Við förum yfir alla ferla og þurfum að skoða hvort það sé eitthvað að þeim núna. Við sjáum það ekki akkúrat núna en getur alveg verið að það verði niðurstaðan.“ Farið sé eftir nýlegum ferlum í svona málum, þó að vissulega sé endalaust verið að forgangsraða.
„Við höfum sett talvert meira fé og meiri mannskap inn í þennan málaflokk og tekið út önnur verkefni sem voru í deildinni,“ útskýrir Sigríður Björk nefnir sem dæmi að áður hafi deildin einnig rannsakað alvarleg ofbeldisbrot, t.d. manndráp, „og þau voru fjögur á síðasta ári. Engu að síður sé þörf á enn meiri mannskap.
Dómsmálaráðuneytið hafi lýst því yfir að það ætli að styrkja málaflokkinn. „Ráðherrann hefur ítrekað lýst því yfir, þannig að ég á von á að það muni gerast,“ segir hún. „Þessum málum er að fjölga, m.a. með tilkomu Bjarkahlíðar þar sem við vonumst til að ná til þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu og sem koma þá kannski ekki til lögreglunnar.“