Skorað á bæjarstjórn að þyrma Sundhöllinni

Bíósalur Duushúsa var þétt setinn áfundi nýstofnaðra Hollvinasamtaka Sundhallar Keflavíkur …
Bíósalur Duushúsa var þétt setinn áfundi nýstofnaðra Hollvinasamtaka Sundhallar Keflavíkur í gærkvöldi. Ljósmynd/Hilmar Bragi

Hafin er söfnun undirskrifta undir áskorun til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að fresta afgreiðslu breytingar á deiliskipulagi sem heimilar niðurrif Sundhallar Keflavíkur. Vísað er til bréfs Minjastofnunar Íslands þar óskað hefur verið eftir frestun svo tækifæri gefist til að finna húsinu verðugt hlutverk og varðveita.

Bíósalur Duushúsa var þétt setinn á fundi nýstofnaðra Hollvinasamtaka Sundhallar Keflavíkur í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni Björgum Höllinni. Talið er að salurinn rúmi um 100 manns en að auki voru 1600 manns að fylgjast með honum í beinni útsendingu á Facebook.

Sterkar tilfinningar

„Ég er alsæl. Mætingin fór fram úr okkar björtustu vonum,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra og einn af forsvarsmönnum Hollvinasamtakanna. „Þetta staðfestir það sem við höfum séð og fundið að mikill áhugi er á málinu. Fólk hefur sterkar tilfinningar til hússins, út frá sögu okkar Keflvíkinga en það er einnig mikilvægt í byggingarsögu landsins og sem hluti af þeim arfi sem Guðjón Samúelsson húsameistari lét eftir sig,“ segir Ragnheiður Elín.

Á fundinum fóru sérfræðingar yfir stöðu Sundhallar Keflavíkur í húsasögu Keflavíkur og landsins alls, sérstaklega með vísan til arfs Guðjóns Samúelssonar. Pétur Ármannsson arkitekt sagði að Sundhöllin skipti máli. Hún væri ein af þremur byggingum Guðjóns í Reykjanesbæ og sú eina sem haldið hefði sínu upphaflega heildarformi. Það gæfi henni aukið gildi.

Pétur sagði að Minjastofnun teldi að húsið hefði ótvírætt byggingar- og menningarsögulegt gildi. Það hefði einnig tilfinningalegt gildi því það tengdist minningum fólks og ætti sér stað í hjarta bæjarbúa. Bærinn yrði fátækari án þess. Húsið hefði einnig gildi á landsvísu.

Í áskorun sem margir fundarmenn skrifuðu undir og kynnt verður bæjarbúum og öðru áhugafólki næstu daga er vísað í erindi Minjastofnunar og óskað eftir því að umhverfis- og skipulagsráð fresti afgreiðslu skipulagsbreytinga. Taka á málið fyrir í ráðinu 13. þessa mánaðar.

Ragnheiður Elín vonast til að við því verði orðið. „Í skipulagslögum segir að ný sveitarstjórn skuli að afloknum kosningum taka afstöðu til þess hvort endurskoða eigi aðalskipulag. Í ljósi þess hversu stutt er til kosninga tel ég einboðið að menn staldri við og leyfi þessu máli að fara í annan farveg,“ segir Ragnheiður Elín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert