Heimila niðurrif Sundhallar Keflavíkur

Sundhöll Keflavíkur.
Sundhöll Keflavíkur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég er auðvitað mjög ósátt við þetta en er ekki tilbúin að gefast upp í málinu. Þetta er eins og í stríðinu, þessi orrusta tapaðist en stríðinu er ekki lokið.“ Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og stofnandi Facebook-hópsins Björgum Sundhöll Keflavíkur, í samtali við mbl.is.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti í dag breytingu á deiliskipulagi vegna Sundhallar Keflavíkur og heimilaði þar með niðurrif hennar.

Ragnheiður Elín segir nokkrar leiðir mögulegar til að halda málinu áfram. Þar nefnir hún ákveðna formgalla á stjórnsýslunni og hugsanlegt vanhæfi nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsráði. „Við munum fara með þetta í gegnum kerfið.“

Myndin er af Facebook-síðu hópsins Björgum Sundhöll Keflavíkur frá 2018.
Myndin er af Facebook-síðu hópsins Björgum Sundhöll Keflavíkur frá 2018.

„Síðan höfum við alltaf sagt að við munum leita allra leiða, og þar með talið hugsanlega skyndifriðun, sem er auðvitað neyðarúrræði,“ segir Ragnheiður Elín. Með slíkri afgreiðslu gæti bærinn hugsanlega skapað sér skaðabótaskyldu.

Hún segir enn vera von fyrir Sundhöllina. „Við erum ekkert hætt. Ég er bjartsýnismanneskja að eðlisfari og hreinlega trúi því ekki fyrr en ég tek á því að einhver sé tilbúinn að setja kúluna á mjög fallegt og sögufrægt hús Guðjóns Samúelssonar. Hús sem bæjarbúar sjálfir söfnuðu fyrir og byggðu. Það eru yndislegar sögur til af því að það voru krakkar niður í átta ára sem voru að leggja sitt af mörkum. Að þessi saga skipti þetta fólk engu máli er mér fullkomlega hulið að skilja.“

Ragnheiður Elín tjáði sig einnig um málið á Facebook-síðu sinni.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert