Grunur um undanskot og þjófnað

AFP

Grunur leikur á stórfelldum undanskotum eigna og þjófnaði úr félaginu SS hús ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta 10. janúar síðastliðinn. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Sigurður Kristinsson, sem átti félagið með bróður sínum og föður, hefur stýrt því undanfarið. Sigurður situr í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningi frá Spáni en hann var handtekinn við komuna þaðan til landsins skömmu fyrir mánaðamót.

Eiginkona Sigurðar liggur alvarlega slösuð á spítala á Spáni eftir að hafa fallið milli hæða á heimili þeirra hjóna í Malaga.

Ekki enn komin á bæklunarspítala

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að enn hefur ekki tekist að koma Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem lamaðist eftir fall á Malaga á Spáni, á bæklunarspítala sunnan Madrídar. Þetta segir Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður Sunnu, í samtali við Morgunblaðið, en hann er nýkominn til landsins eftir að hafa dvalið hjá Sunnu undanfarna daga.

Hann segir það vera mikil vonbrigði að hafa ekki komið Sunnu á spítalann, enda sé liðinn langur tími án viðeigandi meðhöndlunar. „Hver einasta klukkustund skiptir máli í svona málum og nú er liðin meira en vika. Málið er því grafalvarlegt og mikil vonbrigði að þetta skyldi ekki takast nú fyrir helgi,“ segir Jón Kristinn.

Sigurður Kristinsson, eiginmaður Sunnu, var hnepptur í varðhald á Spáni í tengslum við rannsókn á falli Sunnu, en honum var síðan sleppt og telst málið upplýst. Hann kom til Íslands fyrir rúmri viku og var þá handtekinn í tengslum við fíkniefnasmygl.

Í kjölfarið var vegabréf Sunnu tekið af henni og hún er því föst á Spáni. Jón Kristinn segir að búið sé að safna fyrir flutningi á Sunnu heim til Íslands, enn sé þó beðið eftir að hún fái vegabréfið afhent.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu undanskot eigna og óútskýrðar millifærslur af reikningum félagsins hlaupa á hundruðum milljóna. Þá er félagið einnig til rannsóknar hjá skattayfirvöldum meðal annars vegna mikilla vanskila á vörslusköttum. 

Frétt Fréttablaðsins í dag 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert