Sigurður í farbanni þar til dómur fellur

Sigurður Kristinsson sætir farbanni þar til Landsréttur hefur dæmt í …
Sigurður Kristinsson sætir farbanni þar til Landsréttur hefur dæmt í máli hans. mbl.is/​Hari

Landsréttur staðfesti á miðvikudag áframhaldandi farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Sigurði Kristinssyni, sem dæmdur var í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Skák­sam­bands­mál­inu svo­kallaða í síðasta mánuði.

Sigurður áfrýjaði dómn­um til Lands­rétt­ar og var beðið með refs­ingu þangað til málið verður tekið fyr­ir og dóm­ur upp kveðinn á milli­dóm­stigi. Hafði ákæruvaldið óskað þess að hann sætti farbanni þar til sá dómur félli.

Þar sem héraðssaksóknari telur hættu, vegna tengsla Sigurðar við útlönd, að hann muni komast úr landi var honum fyrr í mánuðinum gert að sæta farbanni til 22. mars. Staðfesti Landsréttur svo nú þá niðurstöðu héraðsdóms að Sigurði sé gert að sæta áfram farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðri dómi uns endanlegur dómur er kveðinn upp, þó ekki lengur en til 6. september 2019.

Sigurður var sakfelldur fyrir að skipuleggja og fjármagna innflutning á fimm kílóum af amfetamíni og fékk þyngstan dóm allra sem sakfelldir voru í málinu. Fíkniefnin voru send á skrifstofu Skáksambandsins og þar gerði lögregla þau upptæk. Smyglið tengdist Skáksambandinu þó ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert