Eitt mál til viðbótar þeim átta kærum sem borist hafa vegna meintra kynferðisbrota fyrrverandi starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur er til skoðunar. Lögreglan skoðar ítarlega hvað kunni að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum brotum.
Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að níunda málið væri til skoðunar en það mál er frá því fyrir aldamót.
Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir rannsókn lögreglu miða vel en talað hefur verið við á fimmta tug fólk vegna hennar.
Maðurinn sem um ræðir var starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur og starfaði einnig sem stuðningsfulltrúi. Drengur sem segir manninn hafa brotið á sér kynferðislega á sér þegar hann var á aldrinum 8 til 14 ára lagði fram kæru á hendur honum í ágúst síðastliðnum.
Lögregla hóf hins vegar ekki rannsókn á málinu fyrr en í desember, fimm mánuðum eftir að kæran var lögð fram. Á meðan starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti, líkt og hann hafði gert frá árinu 2010.