Í upphafi ársins hefur verið mikil umræða um stofnleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar á Vesturlandi krefjast úrbóta á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og Hafnfirðingar vilja að tafarlaust verði ráðist í breikkun Reykjanesbrautar í bænum.
Ein er sú leið úr höfuðborginni sem ekkert hefur verið í umræðunni og enginn þrýstihópur hefur myndast um hana. Það er Suðurlandsvegur frá gatnamótunum við Vesturlandsveg að kaflanum Sandskeiði sem búið er að breikka. Umræddur vegarkafli, með eina akrein í hvora átt, er 11,3 kílómetra langur.
Breikkun þessa vegarkafla er ekki á samgönguáætlun og deiliskipulag liggur ekki fyrir, samkvæmt upplýsingum G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.
Hins vegar er búið að verkhanna kafla frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi, en sá hluti vegarins hefur verið sprengdur niður. Kostnaðarmat fyrir breikkunina á þessum kafla hljóðar gróflega upp á 5.000 milljónir króna. Er þá reiknað með að áfram verði hringtorg við Breiðholtsbraut og Norðlingavað en annars mislæg gatnamót. Breikkunin yrði væntanlega unnin í áföngum.
Miðað við umferðartölur á þessum kafla frá árinu 2016 er sólarhringsumferð 10-19 þúsund bílar. Þyngsta umferðin er innan höfuðborgarinnar.
Nú stendur yfir vinna við endurskoðun 4 ára og 12 ára samgönguáætlana. Afrakstur þeirrar vinnu mun liggja fyrir á þessu ári og samgönguáætlanir lagðar fram á Alþingi. Þá kemur í ljós hvort þessi vegarkafli verður settur á áætlun.
Á síðasta ári var skipaður starfshópur til að skoða leiðir til sérstakrar fjármögnunar í því skyni að flýta framkvæmdum við helstu stofnvegi til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Heildarkostnaður við þá vegarkafla var áætlaður 56 milljarðar eða um 47 milljarðar án virðisaukaskatts. Framkvæmdatími var áætlaður 8 ár.
Fréttin í heild sinni birtist í Morgunblaðinu.