Mistök voru gerð í upphafi

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn mun stjórna kynferðisabrotadeild lögreglunnar frá og …
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn mun stjórna kynferðisabrotadeild lögreglunnar frá og með 1. apríl næstkomandi. mbl.is/Eggert

„Okkar niðurstaða er að ferill málsins við úthlutun hafi verið mjög óformlegur. Við sjáum engin merki um að þetta mál hafi verið rætt á vikulegum fundum deildarinnar fyrr en 17. janúar 2018,“ sagði Karl Steinar Valsson yf­ir­lög­regluþjónn á blaðamannafundi lögreglu í dag þar sem niðurstöður skoðunar lög­regl­unn­ar á því, sem fór úr­skeiðis þegar dróst á lang­inn að hefja rann­sókn á ætluðum kyn­ferðis­brot­um karl­manns, sem starfaði hjá Barna­vernd Reykja­vík­ur og sem stuðnings­full­trúi, voru kynntar. Maðurinn er grunaður um brot gegn átta börnum og er níunda málið í athugun hjá lögreglu. 

Karl Steinar, sem stýrði innri athugun á málinu hjá lögreglu, fór yfir helstu atriði skýrslunnar. Hann sagði að tveir hópar hefðu starfað við þessa vinnu, annar við umrætt mál en hinn hefði skoðað feril allra þeirra 173 mála sem eru á borði kynferðisbrotadeildar. Niðurstaða þeirr­ar vinnu er að for­gangs­röðun 18 mála var breytt.

„Við sjáum að deildin stendur frammi fyrir ansi mörgum málum, um 170 málum, og þeim hefur fjölgað stöðugt síðan 2014.“

Karl Steinar rakti að málið hefði hafist 24. ágúst þegar kæra var móttekin en í henni sé vísað til ætlaðra brota frá 2004 til 2010. Sagði hann það mat þeirra að þá hafi verið fullt tilefni til að kanna starfsvettvang hins kærða.

Tveir tölvupóstar frá réttargæslumanni drengsins

Sæv­ar Þór Jóns­son, lögmaður og rétt­ar­gæslumaður drengs­ins sem lagði fram kæru á hend­ur karl­manninum í ág­úst á síðasta ári fyr­ir kyn­ferðis­brot sem hann á að hafa framið gegn hon­um á ár­un­um 2004 til 2010, ít­rekaði kær­una oft­ar en einu sinni áður en lög­regla tók málið til skoðunar í lok síðasta árs.

Frétt mbl.is: Lögmaðurinn margítrekaði kæruna

Í skýrslunni kemur fram að í tvígang, 1. og 5. desember 2017, bárust tölvupóstar til lögreglufulltrúa deildarinnar. Þeim var ekki svarað þar sem lögreglufulltrúinn var veikur. Póstarnir voru sendir áfram á staðgengil en það leiddi ekki til viðbragða lögreglu. 

Verklag í kynferðisafbrotamálum samræmt á landsvísu

Niðurstaða þessarar innri athugunar hjá lögreglu er á þá leið að almennt hafi vinna ekki verið í samræmi við það verklag sem tíðkast í málum sem þessum. Karl Steinar sagði að ljóst væri að mistök hefðu verið gerð í upphafi og fyrir vikið hafi málið ekki fengið þá athygli sem það hefði átt að fá. Skrifleg verkleg forgangsröðun hafi ekki verið fyrirliggjandi og það hafi ýtt undir að ekki var gripið til nauðsynlegra aðgerða. Aðkoma stjórnenda hafi verið ómarkviss.

„Það er okkar niðurstaða að ráðast þurfi í umtalsverðar breytingar á skipulagi deildarinnar,“ sagði Karl Steinar og sagði að stefnt væri að því að styrkja hana samhliða aukinni fjárveitingu frá og með 1. apríl næstkomandi. Eins er lagt til að verklag í kynferðisbrotamálum verði samræmt á landsvísu.

Karl Steinar mun taka við starfi yfirmanns kynferðisafbrotadeildar 1. apríl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka