„Láttu draumana rætast“

Auðvelt virðist vera fyrir hvern sem er að fá smálán, …
Auðvelt virðist vera fyrir hvern sem er að fá smálán, jafnvel í nafni annars einstaklings. mbl.is/Golli

Mál sem Neytendasamtökin fengu inn á borð til sín, þar sem maður sem ætlaði að gera kunningja sínum greiða með því að leyfa honum að leggja inn á sig pening, sem hann myndi svo millifæra á annan reikning, en endaði á einhvern óskiljanlegan hátt með því að taka smálán, er ekki einsdæmi. Kunninginn hafði þá getað tekið smálán í hans nafni og þannig fengið peninginn greiddan inn á hans reikning. Þetta segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Hún segist hafa heyrt af sambærilegum málum þótt samtökin hafi ekki fengið þau formlega inn á borð til sín.

„Þetta er greinilega hægt og þetta mál virðist ekki vera einsdæmi,“ segir Brynhildur. Henni þykir óhugnanlegt að hugsa til þess hve auðvelt er að taka slík lán, og í raun án þess að nokkra staðfestingu þurfi á því að lántakandi sé sá sem hann segist vera.

„Þarna er manneskja búin að slá lán, eða einhver búin að gera það fyrir hana og það er engin staðfesting til staðar. Þegar maður millifærir í heimabankanum sínum þá þarf maður að staðfesta með rafrænum skilríkjum hver maður er. Af hverju gildir það ekki um þetta? Það virðist vera hægt að taka lán án þess að nokkur staðfesting sé fyrir hendi. Er eðlilegt að það sé hægt að taka lán með svo auðveldum hætti? Þegar þetta verður svona einfalt þá býður það upp á svindl.“

Skuldaði smálánafyrirtækjum 4 milljónir 

Brynhildur segir Neytendasamtökin reglulega fá inn á borð til sín mál er tengjast smálánum. Umfjöllun um lánin síðustu daga virðist hafa hreyft enn frekar við fólki sem hefur haft samband og greint frá vandræðum sínum. „Það var kona sem hafði samband og sagði frá dæmi þar sem foreldrar þurftu að losa barn sitt úr klóm þessara fyrirtækja. Þá var skuldin komin upp í fjórar milljónir, þannig [að] um verulegar upphæðir er að ræða.“

Markaðssetning fyrirtækjanna er einnig afar ágeng en þau senda gjarnan ítrekuð smáskilaboð til fólks sem einhvern tímann hefur tekið smálán. Fólk er minnt á að það geti tekið nýtt lán og jafnvel er gengið svo langt að spyrja hvort viðkomandi langi ekki í nýja skó eða aðra flík.

„Við höfum dæmi um að fyrirtækin sendi fólki SMS-skilaboð, sem hefur einhvern tíma tekið smálán, og minni það á þennan möguleika. Eins og: „Hæ Óli, langt síðan við heyrðum síðast í þér, við vildum bara minna þig á að þú átt 80 þúsund heimild, sem þú getur nýtt þegar þér hentar með því að svara þessu SMS.“ Brynhildur segir svo dæmi um að ítrekuð skilaboð séu send í kjölfarið, jafnvel oft í viku, þar sem minnt er á heimildina og möguleika á frekari lánum.

Óumbeðin skilaboð í markaðslegum tilgangi ólögleg

„Láttu draumana rætast, fegraðu heimilið, 20 þúsund króna lán geturðu fengið svo til strax inn á reikninginn þinn.“ Þetta er dæmi um önnur skilaboð sem fyrirtækin hafa sent í þeim tilgangi að lokka til sín nýja viðskiptavini. Í umræðu um slíkar SMS-sendingar sem sköpuðust nýlega í Facebook-hópnum Beauty tips 30+ kom fram að dæmi væru um að skilaboðin væru send þeim sem aldrei hafa átt í viðskiptum við fyrirtækin.

Brynhildur segir það mjög athyglisvert, en svo virðist sem fyrirtækin láti ekki segjast þrátt fyrir dóma og sektir. „Það er búið að dæma þessa starfsemi en fyrirtækin halda áfram.“

Brynhildur segir svona sendingar ekki leyfilegar nema viðkomandi hafi gefið leyfi fyrir þeim, til dæmis með því að haka já við markpósti á einhverjum vettvangi. En í fjarskiptalögum segir að óheimilt sé að nota óumbeðin fjarskipti í markaðslegum tilgangi, nema viðtakandi hafi gefið fyrirframsamþykki sitt fyrir að taka á móti slíkum sendingum.

„Áður var þetta þannig að fólk þurfti að taka hakið af vildi það ekki samþykkja, en nú þarf að haka við ef það samþykkir. Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort allir þeir sem við erum að sjá hafi raunverulega samþykkt þessar skeytasendingar. En maður myndi halda að svona aggresív markaðssetning væri á mörkum þess að vera lögleg. Ef þetta fólk hefur hins vegar aldrei átt í viðskiptum við þessi fyrirtæki þá er það alveg út í hött. Það er eiginlega óboðlegt að þessi starfsemi fái að þrífast og við höfum kallað eftir því að gripið [verði til] aðgerða.“

Verður ekki lengur við unað 

Í fréttatilkynningu sem Neytendasamtökin sendu frá sér í vikunni kom fram að það liti út fyrir að þau úrræði sem stjórnvöld hafa til að koma í veg fyrir ólöglega lánastarfsemi dugi skammt. Starfsemin haldi að minnsta kosti óhindrað áfram. „Það virðist þannig hagstæðara fyrir smálánafyrirtæki að standa í málarekstri við eftirlitsstofnanir, dómstóla og jafnvel fá á sig sektir en að fara að lögunum og lækka lánakostnaðinn svo þau standist lög,“ sagði í tilkynningunni.

Samtökin telja ekki lengur við unandi og sendu í síðustu viku erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem gerð er krafa um að ráðuneytið endurskoði starfshætti smálánafyrirtækja og tryggi að þau starfi lögum samkvæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert