„Við tölum ekki nógu mikið um hákarla“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Virðulegi forseti. Við tölum ekki nógu mikið um hákarla í þessum sal,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem gerði gerði starfsemi smálánafyrirtækja að umfjöllunarefni á þingfundi í dag. 

Hann sagði að hákarlafyrirtæki væru með skotleyfi á neytendur í núverandi lagaumhverfi.

„Ísland er kjörlendi fyrir smálánafyrirtæki sem notfæra sér neyð fólks; sem notfæra sér og græða á þeirri stöðu að fleiri og fleiri heimili hafa átt erfitt með að ná endum saman í tíð þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Jóhann. 

Hann sagði að við núverandi efnahagsaðstæður, þar sem verðbólga er þrálát og vextir himinháir, þá grípi fólk til örþrifaráða og hákarlarnir notfæri sér það.

Margir nýta sér smálán án þess að átta sig á …
Margir nýta sér smálán án þess að átta sig á endanlegum lántökukostnaði. Ljósmynd/Colourbox

60.000 kr. lán geti endað í 200.000 kr.

„Hér voru sett innheimtulög árið 2008 og í kjölfarið reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Mikilvæg skref í rétta átt en þessar reglur eru komnar til ára sinna og duga ekki til að verja neytendur gegn ósanngjörnum innheimtuaðferðum og smálánafyrirtækin komast mjög auðveldlega í kringum þessar reglur.

Segjum að einstaklingur taki 60.000 kr. lán þá getur fyrirtækið skipt slíkri kröfu upp í fimm sjálfstæðar kröfur. Rukkað svo fyrir sendingu á innheimtubréfi fyrir hverja einustu kröfu, svo fyrir sendingu milliinnheimtubréfs, fyrir símtal, fyrir skriflegt samkomulag um greiðslu og ef krafan enda svo í löginnheimtu þá bætast tugir þúsunda við til viðbótar. Þannig að hjá fólki í greiðsluerfiðleikum þá getur kannski 60.000 kr. lán endað með innheimtukostnaði upp á hátt í 200.000 kr.,“ sagði Jóhann og bætti við að þetta léti stjórnarmeirihlutinn á Alþingi viðgangast með því að viðhalda úreltu regluverki.

Hann sagði enn fremur, að þingflokkur Samfylkingarinnar hefði lagt fram lagafrumvarp um að samanlagður kostnaður við frum-, milli- og löginnheimtu yrði aldrei hærri en höfuðstóll kröfunnar sem væri til innheimtu hverju sinni.

Þetta væru breytingar sem Neytendasamtökin hefðu lengi kallað eftir og væri í takti við reglur sem hefðu verið settar í Svíþjóð og Danmörku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka