Viðlagatrygging „með puttann á púlsinum“

Jarðskjálftahrinan í grennd við Grímsey er vöktuð á Veðurstofunni, þar …
Jarðskjálftahrinan í grennd við Grímsey er vöktuð á Veðurstofunni, þar sem þessi mynd var tekin í dag. Viðlagatrygging Íslands fylgist einnig náið með. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsfólk Viðlagatryggingar Íslands fylgist með jarðskjálftahrinunni í grennd við Grímsey úr fjarlægð, eins og flestir aðrir. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar, segir í samtali við mbl.is að íbúum í Grímsey verði síðar í dag sent dreifibréf um það hvernig fyrirbyggja megi eignatjón vegna jarðskjálfta og hvernig bregðast eigi við ef eignatjón verður.

„Við erum fyrst og fremst í startholunum og reynum að tryggja það að fólk viti af tilvist okkar,“ segir Hulda. Hún segir að ljóst sé að aldrei verið stórtjón í Grímsey á mælikvarða Viðlagatryggingar, til þess séu fasteignirnar á svæðinu of fáar.

„En það er alltaf jafnmikið tjón fyrir hvern og einn einstakling sem verður fyrir því, svo við erum með puttann á púlsinum.“

Hulda segist hafa verið í sambandi við Jóhannes Henningsson, formann hverfisráðs í Grímsey, í morgun.

„Hann veit ekki til þess að það hafi orðið eitthvert verulegt tjón, mögulega einhverjar sprungur á hornum á veggjum, svona kíttis-sprungur, en þetta er það langt frá eyjunni að það hafi virðist ekki hafa náð að verða alvöru muna- eða fasteignatjón.“

Hefði mögulega getað orðið mannskaði árið 2008

Í dreifibréfi Viðlagatryggingar til Grímseyinga segir að íbúar ættu að athuga hvort aðstæður í húsnæðinu skapi hættu af einhverju tagi. Gæta eigi þess að festa lausa skápa og hillur, sérstaklega nærri svefnstað.

Íbúum er einnig bent á fræðsluefni frá almannavörnum um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.

Suðurlandsskjálftinn árið 2008 varð um miðjan dag. Hulda segir það hafa komið í ljós síðar að ef að íbúar hefði legið í rúmum sínum er sá skjálfti reið yfir, hefði mögulega getað orðið „mun meiri mannskaði“.

„Það voru þungir hlutir að detta niður úr hillum og í rúm,“ segir Hulda og bætir við að oft þurfi hlutir ekki að vera þungir til að valda skaða, nóg sé að það séu oddhvassir hlutir á borð við myndaramma.

„Það er kannski meira á starfssviði almannavarna að halda fólki upplýstu um þetta, en við að sjálfsögðu viljum líka vekja fólk til vitundar um þetta, því að fólk ber líka ábyrgð á því að forða tjóni ef að tjón er yfirvofandi. Það er mikilvægt að það sé gert það sem hægt er til að draga úr líkum á því að eitthvað skemmist eða að einhver slasist,“ segir Hulda.

Viðlagatrygging Íslands mun senda íbúum í Grímsey dreifibréf í dag …
Viðlagatrygging Íslands mun senda íbúum í Grímsey dreifibréf í dag vegna jarðskjálftahrinunnar. mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert