Fjármálaráðherra vísar því á bug að pukur og fúsk hafi verið uppi á borðum í tengslum við söluferlið á Arion banka. Hann segir að ef menn skoði stöðugleikasamningana þá sé ekki annað hægt að gera en að segja bravó. „Þetta gekk hundrað prósent upp.“
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi. Hún benti á í upphafi ræðu sinnar, að það væri öllum ljóst að þeir sem unnu að stöðugleikaskilyrðunum í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar höfðu aðgang að trúnaðarupplýsingum sem varða hag íslenska ríkisins.
Hún benti á að fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, Benedikt Gíslason, hefði komið að mikilvægri vinnu á sínum tíma fyrir hönd ríkisins.
„Það er því hneyksli herra forseti, að þessi sami aðstoðarmaður vinni nú fyrir Kaupþing og stærstu eigendur Arion banka. Þá sem að stöðugleikaskilyrðin voru sniðin að,“ sagði Oddný og bætti við að Benedikt hefði hafið störf fyrir bankann aðeins nokkrum vikum eftir að hann hætti störfum sem aðstoðarmaður Bjarna.
„Herra forseti, við erum fámenn hér á landi en erum við virkilega svo fámenn að þessi staða hafi verið óumflýjanleg,“ spurði hún ennfremur.
Oddný spurði fjármálaráðherra, hvort honum þætti eðlilegt að fyrrverandi aðstoðarmaður hans geti eina stundina unnið með viðkvæmar trúnaðarupplýsingar fyrir hið opinbera en stuttu seinna farið að vinna fyrir aðila sem hafa augljóslega mikla hagsmuni af því að sýsla með sömu upplýsingar.
Oddný spurði hvort Bjarni hefði ekki gert neina kröfu um að aðstoðarmaðurinn færi ekki að vinna fyrir sömu kröfuhafa og hann var að kljást við, og hvað ráðherra hefði gert til að koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra.
Bjarni sagði að hann og Oddný hefðu rætt þetta sama mál áður í þingsal. Bjarni sagðist hafa farið yfir það sem máli skipti á sínum tíma.
„Hér er verið að dylgja um það að hér sé verið að fara illa með trúnaðarupplýsingar sem mönnum hefur verið treyst fyrir. Og ég verð bara að biðja háttvirtan þingmann að færa einhver rök fyrir máli sínu ef svo er,“ sagði Bjarni.
Hann sagði jafnframt, að þau verkefni sem aðstoðarmaðurinn sinnti væru opinberar upplýsingar í dag.
„Sú sem hér stendur er ekki að dylgja um nokkurn skapaðan hlut, ég var að spyrja hæstvirtan ráðherra spurninga sem hann svaraði ekki,“ sagði Oddný og bætti við að svona atriði sem og afstaða ráðherra skipti máli.
„Sú ákvörðun að fara aðra leið með Arion banka en Íslandsbanka var tekið að kröfu sjálfstæðismanna að sögn fyrrum starfsmanna hæstvirts ráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sporin hræða þegar það kemur að fjármálakerfinu og aðkomu sjálfstæðismanna,“ sagði Oddný og bætti við að allt ferlið yrði að vera gegnsætt og opið.
„Söluferlið á Arion banka er óljóst. Samningar við ríkið hafa ekki allir verið gerðir opinberir og við vitum ekki hverjir eiga vogunarsjóðina. Er ekki kominn tími til að hættum þessu pukri og fúski, og viðurkenna að það vinnur gegn hagsmunum almennings. Getur hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra ekki að minnsta kosti verið sammála mér um það?“
„Þetta eru algjörlega innihaldslaus orð sem falla hér úr ræðustól. Pukur og fúsk. Það er ekkert pukur og það er ekkert fúsk. Háttvirtur þingmaður sat í ríkisstjórninni sem gerði kaupréttinn við Kaupþing á sínum tíma. Hún kannast bara ekki við það,“ sagði Bjarni.
„Þegar menn skoða stöðugleikaskilyrðin, stöðugleikasamningana, þá er ekki annað hægt að gera en að segja bravó. Þetta gekk hundrað prósent upp. Þrýstingur á krónuna var enginn. Verkefnið var til þess ætlað að draga úr gjaldeyrisójöfnuði sem var hætta á að myndaðist við uppgjör gömlu slitabúanna. Það tókst hundrað prósent. Hundrað prósent! Og stöðugleikaframlögin sem hafa verið metin á sínum tíma upp á rétt um 380 milljarða, þau eru í dag metin á um 74 milljarða umfram það sem þá var. 74 milljarða!. Ef að útboðið sem nú er framundan gengur vel, þá reynir á afkomuskiptasamning við ríkið. Þannig að ríkið gæti átt upp í erminni aðra 20 milljarða í greiðslu frá þessum aðilum,“ sagði Bjarni.