Engin vandamál hafa komið upp núna í morgun þegar nemendur í 9. bekkjum grunnskóla landsins tóku samræmd próf í stærðfræði. Um klukkan tíu höfðu tæplega 400 nemendur þegar skilað prófinu og enn eru tæplega þrjú þúsund nemendur að leysa það.
Í gær gátu fjölmargir nemendur ekki lokið við samræmt próf í íslensku vegna tæknilegra erfiðleika.
Ástæðan er sú að tölvuþjónn í Írlandi sem prófakerfið er rekið á hrundi. Hann náði ekki að ráða við álagið þegar þessi fjöldi nemenda skráði sig inn í prófið á sama tíma. Í dag var brugðist við því með því að fjölga netþjónunum, að sögn Arnórs Guðmundssonar forstjóra Menntamálastofnunnar.
„Við töldum okkur vera búin að laga kerfið hér heima á Íslandi og þá gerist þetta,“ segir Arnór. Þegar samræmdu prófin voru lögð fyrir í fyrra komu upp tæknileg vandamál þar sem nemendur gátu til dæmis ekki skráð sig inn í prófið eða duttu út úr því. Þau vandamál tengdust tölvukerfinu hér heima.