Ekki boðlegt fyrir nemendur

Forstjóri Menntamálastofnunar segir málið mikið áfall.
Forstjóri Menntamálastofnunar segir málið mikið áfall. mbl.is/Eyþór

Þetta er mikið áfall,“ segir Arn­ór Guðmunds­son, for­stjóri Mennta­mála­stofn­un­ar. Menntamálastofnun frestaði samræmdu prófi 9. bekkjar í ensku í morgun vegna tæknilegra örðugleika en svipað vandamál varð þess valdandi að fresta þurfi íslenskuprófi á miðvikudag.

Frétt mbl.is: Samræmdu prófi frestað á ný

„Það er ljóst að það komu upp sambærileg vandamál og á miðvikudag þegar við urðum að hætta við íslenskuprófið,“ segir Arnór og bætir við að stofnunin hafi ákveðið að slá prófið af þegar í ljós kom að nemendur voru í vandræðum með að komast inn í það. „Það er ekki líðandi að nemendur þurfi að taka próf við svona aðstæður.“

Fundað um framhaldið í næstu viku

Spurður segir Arnór að Menntamálastofnun hafi farið yfir með þjónustuaðila það sem fór úrskeiðis í íslenskuprófinu á miðvikudag og stofnunin hafi verið fullvissuð um að allt væri komið í lag. „Þeir stóðu við það í gær en svo virðist þeir ekki hafa ráðið við það í dag,“ segir Arnór.

Mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti boðaði til fundar með öllu helstu hagsmunaaðilum á miðvikudaginn en það var ákveðið eftir íslenskuprófið. Arnór telur að þar verði farið yfir framkvæmd íslensku- og enskuprófsins. „Þá verður væntanlega ákveðið hvort bæði prófin verða felld niður eða hvort það verði boðið upp á sambærileg próf aftur.

Frétt mbl.is: „Hvað er að ykkur?“

Fjölmargir foreldrar, skólastjórnendur og kennarar hafa lýst yfir reiði sinni vegna framkvæmdarinnar á Facebook-síðu Menntamálastofnunar. Arnór segir að það sé mjög slæmt að nemendur geti ekki tekið próf við kjöraðstæður og segir að starfsfólk muni komast til botns í þessu máli. „Við munum að sjálfsögðu biðja þetta fólk afsökunar og fara yfir málið með þeim er það varðar.

Skoða alla möguleika

Einhverjir hafa kallað eftir því að samræmd próf verði lögð niður. Á árum áður tóku krakkar í 10. bekk prófin og réði niðurstaða þeirra miklu um hvaða framhaldsskóla þau sóttu um í framhaldinu. Núna taka krakkar í 9. bekk prófið en niðurstaða þess á ekki að skipta neinu máli fyrir framhaldsskóladvölina.

„Okkar sjónarmið eru sú að nemendur fái góðar upplýsingar um sína námsstöðu og geti þar með ákveðið sína áherslu á síðasta ári í grunnskóla. Það má velta fyrir sér hvort það séu aðrar leiðir til að veita nemendum þessa endurgjöf. Ég held að við þurfum að skoða alla möguleika við þessar aðstæður núna,“ segir Arnór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert