Enn á ný prófavandræði

Billi/Brynjar Gunnarsson

Eitthvað ólag er á samræmda prófinu í ensku sem níundu bekkingar þreyta þessa stundina. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Menntamálastofnunar og eins hafa foreldrar haft samband við mbl.is vegna vandræðanna. Í fyrradag komu upp tæknileg vandamál varðandi íslenskuprófið sem þýddi að fjölmargir nemendur gátu ekki tekið prófið.

„Í augnablikinu er mikið álag á prófakerfinu. Prófakerfið virkar ekki í augnablikinu. Verið er að endurræsa prófakerfið og vonir standa til þess að vandinn sé leystur. Vinsamlega bíðið til klukkan 9, þá kemur ný tilkynning um framhaldið,“ segir orðrétt á Facebook-síðu Menntamálastofnunar.

Uppfært 9:07

„Búið er að endurræsa prófakerfið og það á að virka núna. Við óskum eftir því að álaginu verði dreift, að nemendum verði gefinn góður tími til að skrá sig inn. Við biðjum ykkur að endurræsa tölvur án þess að skrá nemendur út úr prófum. Látið nemendur skrá sig inn einn í einu, til dæmis í stafrófsröð,“ segir í nýrri færslu á Facebook.

En kennarar eru á öðru máli þar sem nemendur virðast ekki enn komast inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert