Kennarar og foreldrar eru gríðarlega ósáttir við Menntamálastofnun en tvívegis í vikunni hefur tæknin verið að stríða nemendum í 9. bekk í samræmdum prófum. Fyrst kom upp vandamál í íslenskuprófi í fyrradag og núna eiga fjölmargir nemendur erfitt með að komast inn í enskuprófið.
Í tilkynningu frá Menntamálastofnun fyrir níu kom fram að mikið álag væri á prófakerfinu og það virkaði ekki í augnablikinu. Rétt rúmlega níu birtist önnur tilkynning þar sem kom fram að búið væri að endurræsa prófakerfið og það ætti að virka.
Því voru hins vegar fjölmargir kennarar ósammála. Kennarar benda á að ekkert virki hjá þeim, nemendur með lestraraðstoð komist ekki inn eða nemendur komist inn í prófið og detti ítrekað út.
„Krakkarnir eru mjög ósáttir og einbeitningin farin út um gluggann,“ skrifar einn kennari á Facebook-síðu Menntamálstofnunar og annar bætir við að það sé fáránlegt að bjóða upp á þetta rugl.
„Ég er foreldri (ekki uppeldisfræðimenntuð) og segi bara.... hvað er að ykkur??? Eruð þið að gera ykkur grein fyrir álaginu á 14-15 ára unglinga? Þetta eru eins ómarktæk próf eins og mest getur orðið. Börnin eru aldrei að ná að sýna fulla getu sína undir þessum kringumstæðum,“ skrifar reitt foreldri, einnig á Facebook-síðu Menntamálstofnunar.