Búið er að fresta samræmdu prófi í ensku sem 9. bekkur átti að taka nú í morgun. Menntamálastofnun ákvað það en tæknilegir örðugleikar komu upp í prófkerfinu.
Stofnunin segir að þeim sem er í prófinu og gangi vel sé heimilt að ljúka því.
Í fyrradag komu upp tæknileg vandamál varðandi íslenskuprófið sem þýddi að fjölmargir nemendur gátu ekki tekið prófið.
Kennarar og foreldrar höfðu látið reiði sína í ljós á Facebook-síðu Menntamálastofnunnar í morgun. Þar var til að mynda talað um að prófið væri algjörlega ómarktækt og þessir tækniörðugleikar gerðu það að verkum að álagið á unglingana væri allt of mikið.