Þetta eru gífurleg vonbrigði

Fundað verður vegna málsins á miðvikudaginn í næstu viku.
Fundað verður vegna málsins á miðvikudaginn í næstu viku. mbl.is/Eyþór

„Við fyrirlögn samræmds könnunarprófs í ensku í morgun komu upp tæknilegir örðugleikar vegna álags á vefþjón. Álagið var mikið og virðist vefþjónninn því miður ekki hafa staðið undir því.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntamálastofnun.

Eins og komið hefur fram áður var samræmdu prófi, sem nemendur í 9. bekk áttu að taka í morgun, frestað vegna tæknilegra örðugleika. Sama gilti um íslenskupróf á miðvikudag.

Menntamálastofnun segir að þrátt fyrir umfangsmiklar athuganir og álagsprófanir hjá þjónustuaðila á prófakerfinu komi í ljós að það standist ekki álagið. Af þeim sökum hafi verið ákveðið að fresta enskuprófinu.

„Út frá velferð nemenda er ekki boðlegt að þeir taki próf við þessar aðstæður. Eftir helgi verður fundað með hagsmunaaðilum til þess að taka ákvörðun varðandi fyrirlögn prófanna,“ segir í tilkynningunni en mennta- og menningarmálaráðuneyti boðaði til fundar með hagsmunaaðilum vegna málsins og verður fundurinn haldinn á miðvikudag.

„Menntamálastofnun harmar þetta mjög og þau áhrif sem þetta hefur haft á nemendur, foreldra og skólasamfélagið í heild. Þar sem mikill undirbúningur liggur að baki hjá öllum eru þetta gífurleg vonbrigði. Í ljósi þess óskum við eftir því við þá sem standa næst nemendum að upplýsa þá um stöðu mála og hlúa að þeim eftir bestu getu.“

Þjónustuaðili prófsins sendi einnig frá sér afsökunarbeiðni vegna tæknilegu vandamálanna. Menntamálastofnun og nemendurnir eru beðnir afsökunar. Fram kemur að óvænt villa hafi komið upp við próftöku í morgun sem ekki hafi verið hægt að laga í tæka tíð. Nú sé hins vegar búið að finna lausn á vandanum og þetta eigi ekki að gerast aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert