Sérfræðingar frá menntamálaráðuneytinu og Menntamálastofnun hafa um helgina skoðað lagalegar og próffræðilegar hliðar þess að tvö af þremur samræmdum prófum í níunda bekk klúðruðust í vikunni sem leið. Niðurstaðan verður kynnt á miðvikudaginn á samráðsfundi.
Eins og kunnugt er voru verulegir annmarkar á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í íslensku og ensku, sem lögð voru fyrir nemendur í 9. bekk dagana 7. - 9. mars sl. Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur nauðsynlegt að eyða sem fyrst allri óvissu um næstu skref og mun að afloknum samráðsfundi með hagsmunaaðilum kynna niðurstöðu sína í málinu, samkvæmt fréttatilkynningu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir í fréttatilkynningu: „Það er skylda okkar að bregðast hratt við og sýna nemendum og fjölskyldum þeirra þá virðingu sem þau eiga skilið. Nú þegar hafa ýmsar leiðir verið ræddar og á næstu dögum munum við greina ítarlega kosti og galla hverrar fyrir sig, svo fundurinn á miðvikudaginn verði skilvirkur og markviss. Þar ætlum við að kafa djúpt í málið og komast að endanlegri niðurstöðu. Við munum horfa til ýmissa þátta, ekki síst sjónarmiða nemenda og kennara, og hvernig jafnræði milli nemenda verði best tryggt.“
Boðað var til samráðsfundarins á miðvikudaginn var, eftir að vandkvæði urðu á framkvæmd prófs í íslensku. Ekki urðu hnökrar á framkvæmd prófs í stærðfræði á fimmtudag, en miklir við framkvæmd prófs í ensku á föstudag. Sérfræðingar frá ráðuneytinu og Menntamálastofnun hafa um helgina skoðað lagalegar og próffræðilegar hliðar málsins og mun ráðuneytið deila niðurstöðu þeirrar vinnu með fulltrúum hagsmunaaðila fyrir samráðsfundinn.
Fulltrúar frá Skólastjórafélagi Íslands, Félagi grunnskólakennara, samtökunum Heimili og skóla, forystufólk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðsmaður barna auk fulltrúa nemenda, Menntamálastofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis munu sitja fundinn.