Fundur allsherjar- og menntamálanefndar með forstöðumanni Menntamálastofnunnar, starfsmönnum menntamálaráðuneytisins og menntamálaráðherra er hafinn. Tilefni fundarins er klúður í framkvæmd samræmda prófa í 9. bekk í síðustu viku.
Fresta varð íslenskuprófi á miðvikudaginn vegna tæknilegra örðugleika og það sama var uppi á teningnum í enskuprófinu sem átti að leggja fyrir á föstudag.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tæknin bregst á samræmdu prófi. Fyrir tveim árum, þegar samræmda prófið var í fyrsta sinn þreytt í tölvu, var ekki hægt að nota séríslenska stafi í ritunarþætti íslenskuprófsins.