„Það má gagnrýna Menntamálastofnun fyrir að hafa enga varaáætlun tilbúna,“ segir Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndin fundaði um samræmd próf og framkvæmd þeirra.
Fresta varð íslenskuprófi á miðvikudaginn vegna tæknilegra örðugleika og það sama var uppi á teningnum í enskuprófinu sem átti að leggja fyrir á föstudag.
Páll sagði að fundurinn hefði verið gagnlegur en á hann komu, auk nefndarmanna, menntamálaráðherra, tveir sérfræðingar úr menntamálaráðuneyti, forstjóri Menntamálastofnunar og sérfræðingur þaðan.
Forstjóri Menntamálstofnunar, Arnór Guðmundsson, hefur áður útskýrt að skýringin á klúðrinu liggi hjá þjónustuaðila.
„Nefndarmenn eru eftir sem áður hundóánægðir með hvernig til tókst og finnst algjörlega óásættanlegt að svona skyldi takast til og það hafi ekki verið nein varaáætlun,“ segir Páll.
Hann segist vera ánægður með viðbrögð Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra en á miðvikudaginn verður fundur í menntamálaráðuneytinu, þar sem tekin verður ákvörðun um framhaldið, þ.e. stöðu þessara prófa og gildi þeirra.
„Það er mikilvægast að þetta mál gagnvart nemendunum sjálfum sem urðu fyrir þessu verði leyst með sanngjörnum og réttlátum hætti gagnvart þeim,“ segir Páll og bætir við að meiningin sé að tillögur þess efnis verði kynntar í vikunni í kjölfar fundarins á miðvikudag.
Páll segir að það hafi ekki verið komið inn á það á fundinum hvort einhver hjá Menntamálastofnun verði dreginn til ábyrgðar vegna málsins. „Það liggur fyrir að ástæðan fyrir þessu lá hjá þjónustuaðila. Það má gagnrýna Menntamálastofnun fyrir að hafa ekki tilbúið plan B.“