Óháður aðili mun fara yfir framkvæmd samræmdu prófanna sem voru lögð fyrir nemendur 9. bekkja á landinu í síðustu viku en fjölmargir nemendur gátu ekki tekið prófin vegna tæknilegra erfiðleika. Í þessari úttekt verður farið yfir ferlið og kannað hvort eitthvað í undirbúningi Menntamálastofnunar hafi mátt betur fara. Þessi athugun verður gerð opinber. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Villa kom upp í gagngrunni fyrirtækisins Assessment Systems sem hefur viðurkennt mistök í uppsetningu sinni sem truflaði próftöku rúmlega 4.300 íslenskra nemenda sem reyndu að þreyta próf í íslensku og ensku.
„Þó að ástæðan hafi verið villa í tölvukerfi Assessment Systems þá er enginn vafi á því að endanleg ábyrgð á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum liggur hjá Menntamálastofnun.“ Þetta er haft eftir Arnóri Guðmundssyni, forstjóra Menntamálastofnunnar, í tilkynningu. Hann biður jafnframt nemendur, foreldra, kennara og skólastjórnendur afsökunar á mistökunum.