Nemendur geta tekið prófin aftur

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Rax

Nemendum í 9. bekk gefst kostur á að þreyta að nýju könnunarpróf í ensku og íslensku, en margir þeirra tóku próf við óviðunandi aðstæður í liðinni viku. Þátttaka í könnunarprófunum verður valkvæð, samkvæmt ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Stjórnendur í hverjum skóla ákveða hvort þeir leggja prófin fyrir nemendur sína í vor eða haust.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Þar segir að þeir nemendur sem luku prófunum í liðinni viku fá afhentar niðurstöður úr þeim. Öllum býðst svo að þreyta sambærileg könnunarpróf að nýju, enda er það lögbundin skylda menntamálayfirvalda að bjóða nemendum mat á námsstöðu sinni. Þeir nemendur sem kjósa, að höfðu samráði við forráðamenn, að taka ekki umrædd próf aftur verða leystir undan prófskyldu. Þessi leið var valin þar sem hún er talin sanngjörnust fyrir nemendur.

„Það var mikilvægt að eyða óvissu um framhald þessa máls. Skoðanir nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda eru ólíkar og ég hef t.a.m. fengið fjölmörg bréf frá fólki sem ýmist vill fella prófin niður, leggja þau fyrir alla nemendur að nýju eða fara bil beggja,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningunni.

Réttur nemenda verður ekki tekinn af þeim

„Það er ljóst að engin ein niðurstaða sættir öll sjónarmið í málinu en það er mikilvægt að ákvörðun ráðuneytisins sé í fullu samræmi við lög og sanngjörn gagnvart nemendum. Réttur nemenda verður ekki tekinn af þeim og ég er vongóð um að sátt geti skapast um þessa leið,“ er enn fremur haft eftir Lilju.

Á fundi sem ráðherra hélt í morgun með lykilaðilum úr skólasamfélaginu komu fram ólík sjónarmið. Skoðun sumra var að ógilda ætti prófin þetta árið og ekki afhenda nemendum niðurstöður þeirra. Þrátt fyrir ólík sjónarmið sammæltust fundarmenn um að vinna að farsælli lausn í kjölfar ákvörðunar ráðherra.

Fundarmenn voru einnig sammála um að gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð, svo niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum verði ekki notaðar við mat á umsóknum nemenda um framhaldsskólavist að loknu grunnskólanámi. Niðurstöðunum er því ætlað að gefa nemendum sjálfum vísbendingu um eigin námsstöðu, svo þeir geti nýtt sem best síðasta ár sitt í grunnskóla til að auka hæfni sína í tilteknum greinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert