Líta á lokaeinkunn úr grunnskóla

Niðurstaða samræmdu könnunarprófanna í 9. bekk ætti ekki að hafa …
Niðurstaða samræmdu könnunarprófanna í 9. bekk ætti ekki að hafa áhrif á inntöku nemenda í framhaldsskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samræmdu könnunarprófin hafa í langflestum tilvikum ekki áhrif á inngöngu nemenda í framhaldsskóla. Prófin eru lögð fyrir í 9. bekk og eru eins konar stöðupróf sem gefa nemendum og kennurum tækifæri til að vinna með þá þætti sem þarf að ná tökum á fyrir útskrift úr grunnskóla.  

„Númer eitt, tvö og þrjú lítum við á lokaeinkunnir nemenda við útskrift úr grunnskóla. Í rúmlega 90% tilvika er hún úr 10. bekk en ekki 9. bekk,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir‚ formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari FSU, spurð hvort skólarnir líti til niðurstöðu samræmdu könnunarprófanna þegar nemendur eru teknir inn í skólann.

Olga bendir á að vinnubrögð skóla sé mismunandi varðandi námsmat nemenda. „Við fáum aldrei að vita hvaða nemandi fékk A eða B í samræmdu könnunarprófunum,“ segir Olga og bætir við: „Við höfum í sjálfu sér lítið af þessu að segja.“

Hún segir óheppilegt í alla staði að framkvæmdin hafi misheppnast í tveimur prófum af þremur eins og fram hefur komið. „Þetta grefur undan ýmsu sem snertir menntakerfið sem við megum ekki við. Menntakerfið er svo mikilvægt og við þurfum að láta það ganga vel. Ég skrifa þetta á ákveðna byrjunarörðugleika á þessari rafrænu framkvæmd,“ segir Olga.    

Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, FSu.
Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, FSu. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert