Samræmdu prófin á skjön?

Það er ekkert launungarmál að samræmd könnunarpróf í grunnskólum landsins hafa verið gagnrýnd, ekki bara núna í ár þegar tæknilegir annmarkar settu prófin úr skorðum, heldur einnig síðustu árin. Hefur gagnrýnin meðal annars snúið að því að prófin séu ekki í takt við nútímakennsluaðferðir, séu gamaldags og trufli skólastarf.

Prófin hafa líka verið gagnrýnd fyrir innihald og spurningar og má þar einkum nefna íslenskuprófin, sem málfræðingar, kennarar og foreldrar hafa fundið ýmislegt að, en í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er fjallað um þessa gagnrýni frá ýmsum hliðum. 

Af hverju samræmd próf?

Samræmd könnunarpróf eiga að meta hæfni allra nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður. „Tilgangurinn er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda. Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar. Nemandi, foreldrar/forráðamenn og kennarar geta þannig notað niðurstöður prófsins til að ígrunda frekari áherslur í náminu í framhaldinu.“ (Vefsíða Menntamálastofnunar, mms.is)

 

„Með samræmdu prófunum eiga kennarar að geta metið stöðu nemenda í faginu. Raunin er sú að það er afar erfitt að fá að vita sérstaklega hvað vel er gert eða verr, niðurstöðurnar er erfitt að nota til gagns og kennarar fá takmarkaðar upplýsingar. Þá er verið að prófa mjög lítinn hluta og á einhæfan hátt og prófin eru bara alls ekki í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og taka aðeins á örfáum hæfniviðmiðum. Nemendur fá ákveðna raðeinkunn eða þennan bókstaf en það er verið að prófa svo lítinn hluta námsefnis, á svo einhæfan hátt, að nemendur fá ekki að sýna hvað í þeim býr.“ Hulda Dögg Proppé kennari

„Samræmdu prófin eru afar takmörkuð og sjónarhorn þeirra er þröngt, sniðið fyrir lítinn hóp nemenda. Hér á landi er „skóli án aðgreiningar“ opinber skólastefna og í dag er eðlilega mikil pressa frá ríki og sveitarfélögum á að við vinnum eftir þeirri stefnu. Við tökum alla inn í almenna grunnskóla, krakka sem flytja frá útlöndum, krakka með ýmiss konar fatlanir og raskanir. Fyrir þessi börn eru prófin kvalræði og gera ekkert annað en setja þau til hliðar. Samræmd próf eru því skaðleg fyrir nútímaskólastarf þar sem markmiðið er að rækta margs konar eiginleika og hæfni og koma algjörlega á skjön inn í það starf og vinna gegn hinni opinberu skólastefnu. Samræmdu prófin eru eldgamalt fyrirbæri og í seinni tíð eru þau orðin að einhvers konar stofnun sem lifir sjálfstæðu lífi og er ekki í neinum tengslum við starfið í skólanum lengur.“ Hafsteinn Karlsson skólastjóri

„Það er mikilvægt að átta sig á því að samræmd próf heita samræmd próf því þau eru í samræmi við aðalnámskrá. Hinn þátturinn í að þau eru samræmd er að þau eru samanburðarhæf, milli nemenda, sveitarfélaga og landshluta. Í niðurstöðum þeirra koma fram mikilvægar niðurstöður fyrir þá sem reka grunnskóla og þurfa að fylgjast með frammistöðu nemenda og fyrir menntayfirvöld til að fylgjast með stöðu menntakerfisins. Það er til dæmis áhyggjuefni sá vaxandi munur sem birtist milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins í niðurstöðum þessara prófa og það væri ekki hægt að bregðast við því ef þessi samanburður væri ekki fyrir hendi. Það væri því mjög bratt að afnema þessi próf.“  Arnór Guðmundsson, Menntamálastofnun

Enginn fær að sjá

Menntamálastofnun er ekki skylt að veita aðgang að prófspurningum eftir að prófin hafa verið lögð fyrir, samkvæmt reglugerð um framkvæmd samræmdra prófa. Foreldrar sem lagt hafa fram beiðni til Menntamálastofnunar um aðgang að samræmdum prófum sem hafa verið lögð fyrir börn þeirra hafa fengið neitun og nú nýlega hafa foreldrar a.m.k. tveggja barna skotið synjuninni til úrskurðarnefndar upplýsingamála sem er enn með málin til meðferðar.

„Prófin eiga að hjálpa nemendum að finna hvar skórinn kreppir svo þeir geti tekið sig á í 10. bekk. En þar sem við fáum aldrei að sjá prófin er erfitt að undirbúa þau og einnig er erfitt að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda að bæta sig eftir prófið því ég veit ekki hvað það var sem gerði það að verkum að ákveðinn nemandi fékk svona eða hinsegin einkunn. Hjá okkur hafa verið nemendur sem hafa verið afburða nemendur en hafa fengið einkunn sem þeir hafa verið ósáttir við og við kennarar getum ekki fengið að vita hvað lá til grundvallar þeirri einkunn. Og öfugt, við höfum verið með nemendur sem hafa átt mjög erfitt með að fóta sig og hafa fengið háa einkunn og sökum fyrirkomulagsins höfum við ekki getað fengið að sjá hvar styrkleikar þeirra liggja.“ Hulda D. Proppé, kennari

 

„Menntamálastofnun hefur undanfarin ár unnið að innleiðingu rafrænna samræmdra könnunarprófa og eru einstaklingsmiðuð próf endanlegt markmið þeirrar vinnu. Einungis er mögulegt að leggja slík próf fyrir á rafrænu formi þar sem prófkerfið þarf að geta fylgt getu nemandans eftir sjálfvirkt með því að leggja fyrir hann spurningu við hæfi, þannig velur prófkerfið hærra hlutfall erfiðra prófspurninga fyrir nemendur sem sýna fram á góða hæfni, en hærra hlutfall auðveldra prófspurninga hjá nemendum þar sem hæfnina skortir. Í slíku prófaumhverfi fer niðurstaðan eftir því hve þungum prófspurningum nemandi svarar rétt, en ekki hve mörgum. Erlendar rannsóknir sýna fram á að með einstaklingsmiðuðum prófum er hægt að fá ýtarlegri upplýsingar um námsárangur nemenda sem er bæði nemandanum og skólakerfinu til hagsbóta. Einstaklingsmiðuð próf byggja á mjög stórum banka af prófaspurningum, raunar svo stórum að ekki er raunhæft að semja ný atriði fyrir hverja próffyrirlögn. Bæði þarf að vera til staðar fjölbreytni í því hvaða hæfni prófspurningar reyna á og um leið ákveðinn fjöldi prófspurninga sem reyna á sömu hæfni og eru svipuð að þyngd. Í prófaumhverfi sem þessu eru prófatriði alla jafnan notuð í nokkur ár og gerð opinber þegar notkun er hætt. Til þess að unnt sé að ná fram markmiðinu um einstaklingsmiðuð próf er nauðsynlegt að prófspurningarnar komi ekki fyrir augu almennings þann tíma sem þær eru í notkun ef prófspurningar eiga ekki að falla úr gildi. Ef prófspurningar hefur borið fyrir augu nemenda sem eiga að fara í próf, foreldra eða kennara þeirra er ljóst að ekki er hægt að nota þær aftur.“ Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar

Ég skil ekki þessa leynd og hef lengi talið að hún standist ekki upplýsingalög eins og verið er að láta reyna á núna. Kennarar vita í raun ekki í hvernig próf nemendur þeirra eru að fara í og alltaf eftir próf fæ ég pósta frá kennurum sem hafa kannski gægst yfir öxlina á nemendum í prófum og eru að spyrja mig hvort hitt og þetta sé rétt. Kennarar hafa svokallað sýnispróf á vef MMS til undirbúnings og maður hlýtur að ætla að það gefi góða mynd af því hvernig raunverulega prófið er, annars er það verra en ekki neitt. Ef það er raunin, þá er sýniprófið nákvæmlega eins og prófin voru áður og þau hafa mikið verið gagnrýnd og eru meingölluð. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði

„Menntamálastofnun gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að nemendur, kennarar og foreldrar geti skoðað árangur nemenda á prófi, hvar nemandinn sýndi fram á góða hæfni og hvar hann getur ef til vill bætt sig frekar. Því hefur stofnunin útbúið rafræna prófúrlausn sem grunnskólar geta látið foreldrum í té, þar sem kemur fram hvernig nemandi svaraði hverri prófspurningu, lýsing á þeirri hæfni sem viðkomandi prófspurning krafðist og sýnishorn af prófspurningu sem reynir á sömu hæfni. Einnig er unnið að mælaborði í Skólagátt fyrir samræmd könnunarpróf.“ Arnór Guðmundsson, Menntamálastofnun „Ég vil halda því fram að gagnrýni á prófin hafi gert það að verkum að lokað var fyrir aðgang að innihaldi prófanna. Ég var einn af þeim sem gagnrýndu innihald íslenskuprófsins á sínum tíma og nú fáum við ekki að sjá þau lengur. Við vitum ekki hvernig þessi próf eru og þegar þetta eru próf sem eiga að skipta máli þá er stórmerkilegt að við fagfólkið fáum ekki að sjá þau. Ef við vitum ekki hvernig prófin eru, eigum við þá að senda börnin í þau? Rafræn prófúrlausn sem grunnskólar fá hafa nánast ekkert nýst. Aðeins er hægt að sjá hvernig t.d. dæmið var, ekki hvers vegna nemandinn leysti verkefnið ekki rétt. “ Hafsteinn Karlsson, skólastjóri

Gagnrýni á íslenskuhlutann

„Allar spurningar prófsins byggja því á námsefni og námsmarkmiðum sem eru tilgreind í aðalnámsskrá. Aðalnámsskrá leggur áherslu á kunnáttu, leikni og hæfni nemenda en ekki ákveðin afmörkuð efnisatriði. Þannig er ekki gefinn út sérstakur listi af atriðum heldur lögð fram fjölbreytt próf sem reyna á ólíka kunnáttu, leikni og hæfni.“ Vefsíða Menntamálastofnunar, mms.is

„Samræmd próf taka á brotabroti af því sem nám nemenda á að fela í sér og eru ekki í neinu samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Nemendur og kennarar vita ekki hver áhersluatriðin eru, t.d. í málfræði. Á prófunum er einungis kannaður lesskilningur, málnotkun og málfræðikunnátta. Ekki röksemdafærsla, túlkun, framsögn, eða ritun. Vissulega er skoðað hvort orð séu rétt stafsett en það er ekki ritun, það er ekki að kenna nemendum að færa rök fyrir máli sínu og beita orðaforða. Nemendur fá því ekki að sýna hvað þeir geta og þeir vita ekki til hvers er ætlast því kennarar fá ekki að vita hvaða efnistök liggja til grundvallar samræmdum prófum.“ Hulda Dögg Proppé kennari

„Málfræðihluti prófsins fellur ekki vel að námsskrá og markmiðum hennar og þótt allir geti gert mistök þá eru of oft beinar villur í spurningum í þeim hluta prófsins sem ég hef skoðað, málfræðihlutanum. Oft er ekki ljóst hvert svarið á að vera og stundum er ekki hægt að sjá endilega hver rétti möguleikinn er, þar sem tvö svör koma til greina og mikil áhersla lögð á gildrur, sem er ekki vel til þess fallið að sýna málkunnáttu. Ég hef heyrt það sama um lesskilningshlutann frá öðrum íslenskuprófessorum en þegar við prófessorar í íslensku erum í vafa hvað er rétt svar á þessum krossaprófum hlýtur að þurfa að endurskoða þau.“ Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslenskri málfræði.

 

„Samræmdu prófin snúast meira og minna um að muna meðan aðalnámsskrá snýst fyrst og fremst núna um hæfniviðmið í námi. Hæfni til að nýta sér þekkingu og færni. Það að taka próf í því að muna, sem einhvers konar allsherjar uppsprettu nemenda gengur ekki lengur í því umhverfi sem við erum að vinna. Prófin og skólastarfið tala ekki saman.“ Helga Birgisdóttir kennari „Krossapróf sýna bara takmarkaða kunnáttu nemenda og jafnvel hæfileika til að ramba á rétt svar. Þú færð ekkert að sýna hvað þú getur gert ef þú átt að svara kostum. Ég sem kennari tók sjálf sýniprófið á vef mms.is áður en ég fór í gegnum það með nemendum og ég sem menntaður íslenskukennari fékk ekki fullt hús stiga því þarna var fullt af spurningum með afar loðnum valmöguleikum.“ Hulda Dögg Proppé kennari

„Menn hafa áhyggjur af stöðu íslenskunnar og skiljanlega. Við erum til í alla faglega umræðu en frábiðjum okkur gífuryrði sem hafa verið sett fram í gagnrýni á til dæmis samfélagsmiðlunum. Það má alltaf gera betur í námsmati og við erum að vinna í því að þróa prófin þannig að þau falli betur að áherslum námsskráarinnar. Við höfum heyrt talað um að Menntamálastofnun sé metnaðarlaus varðandi þróun prófa en ég held að sumu leyti höfum við farið of hratt í metnaði fyrir að láta íslenskunemendum og skólum í té nútímaleg próf og þess vegna var tekin nokkur áhætta í þessari rafrænu fyrirlögn. Með ritunina og aðra þætti þá ætlum við að taka þá þætti íslenskunnar inn í annars konar stöðupróf og skimanir sem munu fljótlega líta dagsins ljós og verða hluti af Lesferli, sem er heiti á nýju matstæki sem Menntamálastofnun vinnur að. Þar á að meta læsi, lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning en þessi próf verða öll tilbúin til notkunar 2020.“ Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar

Umfjöllun birtist í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka