Ekki stætt á öðru en að samþykkja skipulagið

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti í vikubyrjun deiliskipulag fyrir Framnesveg 9 og …
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti í vikubyrjun deiliskipulag fyrir Framnesveg 9 og 11, sem heimilar að Sundhöllin í Keflavík sé rifinn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við frestuðum afgreiðslu á deiliskipulaginu um mánuð í samvinnu við Minjastofnun til að gefa samtökunum tækifæri á að koma með einhverjar hugmyndir um hvað hægt væri að gera,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og oddviti Samfylkingarinnar. Greint var frá því á mánudag að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefði samþykkt deiliskipulag fyrir Framnesveg 9 og 11, sem heimilar að Sundhöllin í Keflavík sé rifinn.

Hollvinasamtök Sundhallarinnar hafa undanfarnar vikur barist fyrir því að Sundhöllin verði ekki rifin, heldur verði húsinu fundið annað hlutverk. Friðjón segir ekkert hafa komið út úr þeim hugmyndum, enda skilgreini Hollvinasamtökin sig sem áhugahóp, ekki fjárfesti.

„Í samtölum okkar við Minjastofnun hefur hins vegar komið fram að Minjastofnun lítur á hópinn sem hugsanlegan eignaraðila eða ráðgefandi aðila í málinu,“ segir hann.

Ætlaði ekki að beita sér fyrir friðlýsingu

Bæjarráð Reykjanesbæjar leitaði í október á síðasta ári umsagnar Minjastofnunar og þá ætlaði stofnunin ekki að beita sér fyrir fyrir friðlýsingu hússins. „Minjastofnun hefur hins vegar breytt um skoðun eftir að hópur íbúa kom fram og finnst það áhugavert ef að þessi hópur íbúa getur gert eitthvað við húsið.“

Segir Friðjón að í samskiptum sínum við Minjastofnun hafi komið fram að áhersla stofnunarinnar sé á að tími verði gefin til að skoða hvort einhverjir möguleikar séu á að gera eitthvað við húsið.

„Húsið þarfnast mikils viðhalds og lagfæringar. Upphæðirnar hlaupa á hundruðum milljóna ef það á að lagfæra það,“ segir hann. Ekki standi til að bærinn kaupi húsið og Hollvinasamtökin hafi aldrei óskað aðkomu bæjarins með öðrum hætti en að biðlund sé sýnd. 

Spurður hvort að núverandi bæjarráð hafi rætt sitt viðhorf til hússins segir hann svo ekki vera. „Við eigum mikið af gömlu húsum sem við erum að gera upp og við höfum ekki fjármagn í þetta. Við erum með samning við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um aðlögunaráætlun til 2022. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum kaupum á svona húsnæði, hvað þá að við förum í einhverja endurgerð sem nauðsynlega þarf,“ útskýrir Friðjón og kveðst ekki telja ástæðu til að slík stúdía fari fram. Bæjaryfirvöld vilji frekar byggja leikskóla og veita lögbundna þjónustu.

Getur skapast fjögurra mánaða svigrúm til viðbótar

Hollvinasamtökin hafa hvorki lagt fram tilboð í húsið né áætlun og eftir að eigandi hússins tilkynnti 13. mars sl að það sé ekki til sölu hafi ekki annað verið sætt í stöðunni en að samþykkja deiliskipulag. Það hafi líka verið gert ráð fyrir því í gögnum bæjarins frá 2009 að húsið væri víkjandi og raunar gert ráð fyrir niðurrifi þess frá 2006.  

Deiliskipulagið verður næst sent til Skipulagsstofnunnar sem hefur tvo mánuði til að samþykkja eða hafna skipulaginu og Minjastofnun, sem er ráðgefandi aðili hjá Skipulagsstofnun, getur skyndifriðað húsið um aðrar sex vikur.

„Þannig getur skapast allt að fjögurra mánaða svigrúm til viðbótar í málinu. Málið snýst um eiganda hússins og Minjastofnun og okkar aðkoma er í raun engin, nema sú að við viljum gæta jafnræðis allra aðila og þess vegna gátum við ekki frestað deiliskipulagi lengur,“ segir Friðjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert