Áfram í haldi vegna grófra brota

mbl.is/Hanna
Landsréttur staðfesti á miðvikudag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli stuðningsfulltrúa sem er grunaður um að hafa beitt börn grófu kynferðisofbeldi. Maðurinn skal sæta varðhaldi til 13. apríl. Úrskurður héraðsdóms féll 16. mars.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að til rannsóknar séu fimm mál þar sem maðurinn sé grunaður um að hafa beitt einstaklinga á aldrinum 6-19 ára grófu kynferðisofbeldi. Um sé að ræða börn sem gist hafi heima hjá honum af ýmsum ástæðum, eða hann eigi að hafa brotið gegn á ferðalögum innanlands sem og erlendis.

Rannsókn málanna er langt á veg komin og verða málin send héraðssaksóknara til meðferðar innan skamms.

Vann sér inn traust barnanna

Fram kemur í greinargerð lögreglu, að í málilnu sé um að ræða sjö kærendur. Að mati lögreglu eru framburðir brotaþola trúverðugir. Þá segir, að fyrir utan þrjá brotaþola hafi brotaþolar ekki borið saman bækur sínar, heldur gefið sig fram undir rannsókn málsins.

Enn fremur segir, að málsatvik allra málanna séu keimlík, þ.e. að kærði hafi unnið sér inn traust brotaþola, látið þá sofa uppi í rúmi hjá sér og þar hafi hann brotið gegn þeim í flestum tilfellum. Þá séu verknaðarlýsingar í kæruskýrslum í flestum tilfellum þær sömu nema í tilfelli eins brotaþola. 

Í ljósi þessa og þess að brotaþolar þekkist ekki eða hafi ekki verið í samskiptum áður en kærurnar hafi verið lagðar fram telji lögregla ekki tilefni til að draga ásakanir brotaþola gegn kærða í efa. Þá hafi maðurinn sjálfur lýst því að hann hafi látið börnin sofa uppi í rúmi hjá sér og hafi jafnframt lýst sömu ferðalögum og brotaþolar, en brotaþolar hafi lýst því að kærði hafi brotið gegn þeim á þeim ferðalögum. Styðji framburður mannsins því framburði brotaþola.  Þá séu vitni í þremur málanna.

Einnig kemur fram, að það sé ljóst að meint brot hafi haft mikil áhrif á andlega líðan brotaþola.

Sérstaklega gróf kynferðisbrot

Tekið er fram, að í málunum sé um að ræða sérstaklega gróf kynferðisbrot gegn börnum frá 6 ára aldri sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi. Lögreglustjóri sagðist telja að meint umrædd brot væru þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, enda væri um ítrekuð tilvik gegn mörgum einstaklingum að ræða sem spanni margra ára tímabil og talin væru svívirðileg í augum almennings.  Þá myndi það án efa særa réttarvitund almennings og valda hneykslun í samfélaginu, gengi kærði laus.

Maðurinn andmælti því að uppfyllt væru skilyrði fyrir því að fallast á kröfu lögreglustjóra. Ekki hefði verið eðlileg framvinda í rannsókninni frá þeim tíma er slík krafa hefði síðast verið samþykkt. Við það tækifæri hefði rannsókn málsins verið sögð á lokametrunum og ekki hefði annað komið fram en hún væri enn á sömu lokametrum. 

Héraðsdómur segir aftur á móti að gögn málsins bendi ekki til að ekki sé eðlilegur gangur á rannsókn málsins. Var maðurinn því úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald sem Landsréttur hefur nú staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert