Öskrað á fólk að drífa sig út

Eldur í húsnæði Icewear í Garðabæ.
Eldur í húsnæði Icewear í Garðabæ. mbl.is/Eggert

„Fyrir það fyrsta var mjög óhugnanlegt hvað þetta gerðist hratt. Bjallan hringdi og fólk stóð upp og við kíktum inn í lagerrýmið og það var strax kominn hitagustur sem feykti manni hálfpartinn í burtu. Síðan var bara öskrað á fólk að drífa sig út og það átti bara fótum sínum fjör að launa. Starfsmennirnir á lagernum voru bara heppnir held ég að hafa ekki skaðast meira.“

Eldur í húsnæði Icewear í Garðabæ.
Eldur í húsnæði Icewear í Garðabæ. mbl.is/Eggert

Þetta segir Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear, en mikill eldur kom upp í skrifstofu- og lagerhúsnæði fyrirtækisins í Garðabæ í morgun og er enn unnið að því að slökkva eldinn. Aðalsteinn var staddur á skrifstofunni þegar eldurinn kom upp. Hann segist aðspurður ekki vita hvar hann hafi komið upp. Það komi væntanlega ljós við rannsókn málsins.

mbl.is/Eggert

„Fólk varð hálfpartinn að brjóta sér leið út, sogið sem skapaðist lokaði öllum dyrum þannig að það varð pínu panik í því að reyna að komast út og sjá reykinn vera að læðast aftan að sér. Þetta var frekar óhugnanlegt,“ segir hann ennfremur. Lagerinn í húsinu er miðlager fyrirtækisins þaðan sem allar verslanir þess um allt land eru afgreiddar með vörur.

„Húsið er náttúrlega ónýtt,“ segir Aðalsteinn ennfremur aðspurður en um leiguhúsnæði er að ræða. „Þetta er hundraða milljóna króna tjón bara í lagernum.“ Varðandi næstu skref segir hann að fara þurfi yfir málið með tryggingafélaginu og þá þurfi að finna nýtt húsnæði og ræða við alla birgja fyrirtækisins og framleiðendur. „Lágmarka skaðann í stöðunni.“

Fjölmennt lið slökkviliðsmanna er á vettvangi.
Fjölmennt lið slökkviliðsmanna er á vettvangi. mbl.is/Eggert

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að staðan hafi versnað. Eldurinn leiti nú til suðurs í átt að húsnæði Geymslna. Þá greindi hann fréttamanni frá því að slökkviliðsmaður hefði fallið í gegnum gólf í húsnæðinu. Maðurinn er óslasaður og mun halda áfram störfum á vettvangi. Vindáttin hefur verið að breytast, en nú er norðaustanátt og reyk leggur í áttina að verslun IKEA. Verið er að biðja fjölmiðlafólk að færa sig.

mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert