„Félagið hefur engar upplýsingar um kæru“

Reykjarmökkurinn frá brunanum í húsnæði Geymslna og Icewear í apríl …
Reykjarmökkurinn frá brunanum í húsnæði Geymslna og Icewear í apríl 2018 sást víða um höfuðborgarsvæðið. mbl.is/Eggert

„Félagið hefur engar upplýsingar um kæru, hvorki á hendur félaginu né stjórnendum þess og telur engar fyrirliggjandi forsendur til sakamálarannsóknar nú af nokkru tagi. Málið var rannsakað af lögreglu á sínum tíma, eins og hefðbundið er, og gaf niðurstaða þeirrar rannsóknar ekki tilefni til athugasemda í garð Regins hf., RA 5 ehf. eða fyrirsvarsmanna félagsins.“

Þetta segir í skriflegu svari yfirlögfræðings fasteignafélagsins Regins hf. við spurningum mbl.is er snúa að brunanum við Miðhraun 4 í Garðabæ í apríl 2018 en Morgunblaðið greindi nýlega frá því að forsvarsmenn fyrirtækisins FF 11 ehf., sem var eigandi hluta fasteignarinnar sem brann, hefðu lagt fram kæru á hendur tveimur fyrirtækjum, Regin hf. og dótturfyrirtækinu RA 5 ehf. vegna meintra brota gegn almennum hegningarlögum og lögum um brunavarnir.

Öllum kröfum mótmælt

Segir enn fremur í svari Regins að lögregla hafi rannsakað brunann á sínum tíma og niðurstaða þeirrar rannsóknar ekki gefið tilefni til athugasemda í garð Regins hf., RA 5 ehf. eða fyrirsvarsmanna félagsins.

Greinir jafnframt frá því að FF 11 ehf. hafi gert kröfu á hendur RA 5 ehf. vegna meints afleidds tjóns, það er tapaðra leigutekna, sem félagið telji sig hafa orðið fyrir í tengslum við brunann.

„RA5 ehf. hefur hafnað slíkum kröfum. RA5 ehf. telur skilyrði skaðabótaskyldu ekki fyrir hendi og hefur öllum málsástæðum og kröfum FF11 verið mótmælt. Málið er í hefðbundinni meðferð fyrir [H]éraðsdómi Reykjaness og hefur RA 5 skilað greinargerð í málinu,“ segir í svari Regins.

Leggi gríðarlega áherslu á brunavarnir

Ekkert liggi fyrir um hvort málið muni hafa fjárhagsleg á félagið, fyrir liggi að FF 11 ehf. hafi fengið sitt tjón bætt að fullu úr tryggingum og RA 5 hafni þeim fullyrðingum að eldsupptök hafi á einhvern hátt verið á ábyrgð þess fyrirtækis eða að það sé með einhverjum hætti bótaskylt vegna brunans.

„Reginn er annað stærsta fasteignafélag landsins og leggur gríðarlega áherslu á brunavarnir í fasteignum sínum sem og aðrar lögbundnar skyldur. Félagið sinnir eftirliti með reglubundnum hætti eins og lög kveða á um. Félagið kannast ekki við að brunavarnir hafi verið fjarlægðar við endurbygginguna. Fyrir liggur að þegar bruninn varð að Miðhrauni hafði brunakerfið í eignarhluta RA 5 nýlega verið yfirfarið og lágu fyrir athugasemdalausar skýrslur þess efnis,“ segir yfirlögfræðingur Regins að lokum í svari sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert