Ljósmyndirnar af dætrunum farnar

Slökkviliðið að störfum í Miðhrauni í morgun.
Slökkviliðið að störfum í Miðhrauni í morgun. mbl.is/Eggert

„Þetta er ömurlegt. Maður finnur bara til í hjartanu að hugsa til þess að þetta sé farið,“ segir Elfa Hannesdóttir.

Hún og eiginmaður hennar Jóhann Konráð Birgisson voru með eignir úr tveimur búslóðum í Geymslum.is þar sem eldsvoði kom upp í morgun. Það sem er verra er að allar þær ljósmyndir sem eru til af tveimur dætrum Elfu þegar þær voru litlar voru í geymslunni.

Dætur hennar eru 21 árs og 16 ára í dag og voru myndirnar af þeim ekki teknar stafrænt eins og tíðkast í dag.  „Ég er rosalega sorgmædd. Þú getur kannski bætt aðra hluti en þetta bætirðu bara ekki, það er ekki hægt.“

Elfa nefnir einnig að gamalt veiðidót hafi verið í geymslunni sem faðir Jóhanns átti en það hefur tilfinningalegt gildi fyrir Jóhann.

„Maður hefur verið að fara yfir í huganum hvað var þarna. Það situr svo svakalega í manni að allar myndir af börnunum manns séu horfnar, það blokkar allt annað,“ segir hún.

mbl.is/Hjörtur

Virðist brunnið upp til agna

Elfa segir að þau hjónin hafi keyrt framhjá Geymslum.is í dag og séð að þar sem geymslan þeirra var staðsett á efri hæðinni virðist allt vera brunnið upp til agna. „Það er ekkert hægt að endurheimta það. Það er alveg greinilegt.“

Hún telur að hugsanlega hafi eignir annarra í geymslum á neðri hæðinni sloppið. Aðspurð segir Elfa þau hjónin vera tryggð fyrir tjóni á öllum sínum eignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert