Grunnskólar hafa val um tímasetninguna

Prófin verða lögð fyrir á ný á tímabilinu 30. apríl …
Prófin verða lögð fyrir á ný á tímabilinu 30. apríl til 11. maí eða frá 10.-15. september. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Samræmd próf þeirra 9. bekkinga sem urðu fyrir barðinu á tæknilegum vandamálum við fyrirlagningu þeirra í vor verða lögð fyrir að nýju, annaðhvort í vor eða haust, en grunnskólar hafa val um það hvort prófatímabilið þeir kjósa frekar. Einhverjir nemenda verða því komnir í 10. bekk er þeir þreyta prófið.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að prófað verði á ný í íslensku og ensku dagana 30. apríl til 11. maí eða dagana 10.-15. september, kjósi grunnskólar að halda prófin í haust.

Menntamálastofnun fundaði með fulltrúum frá Skólastjórafélagi Íslands, Félagi grunnskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Grunni – félagi fræðslustjóra, mennta- og menningarmálaráðuneyti, sérfræðingahópi um framkvæmd samræmdra könnunarprófa, Heimili og skóla og Umboðsmanni barna, til að útfæra framkvæmdina og lögðu allir aðilar áherslu á þennan sveigjanleika í tímasetningum.

„Menntamálastofnun mun innan tíðar senda skólum nánari upplýsingar um skráningar skóla á prófadaga. Prófin í íslensku og ensku verða haldin á tilteknum dögum sem skólar geta valið á milli. Þá munu skólar einnig hafa val um á hvaða tíma dags prófin verða lögð fyrir. Velja þarf sama prófatímabil, vor eða haust, fyrir bæði prófin,“ segir í frétt Menntamálastofnunar um málið.

Þar er einnig tekið fram að vegna þessa fyrirkomulags á fyrirlögn prófa í íslensku og ensku verði að gera fyrirvara um samræmingu og samanburðargildi þeirra. Lögð verður áhersla á að veita endurgjöf til nemenda með svokallaðri hæfnieinkunn en ekki verða teknar saman heildarniðurstöður eða meðaltöl.

Í frétt Menntamálastofnunar segir einnig að vinnuhópur mennta- og menningarmálaráðherra um samræmd könnunarpróf verði skipaður á næstu dögum. Hann mun gera tillögu að framtíðarstefnu um fyrirkomulag prófanna. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum sínum til ráðherra fyrir árslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka