Þurfti að taka utan um nokkra

Frá brunarústunum í morgun.
Frá brunarústunum í morgun. mbl.is/Rax

„Ég er bara einn af fjölmörgum sem lenda í þessum ósköpum,“ segir Björgvin Halldórsson í samtali við mbl.is. Hlutir úr hljóðveri hans, búslóð Svölu, dóttur hans, og ýmislegt dót í hans eigu var í geymslu í húsinu við Miðhraun í Garðabæ sem varð eldi að bráð í gær.

„Á þessu stigi málsins veit ég ekki hversu miklar skemmdir urðu. Mín geymsla var á neðri hæðinni en efri hæðin fór mjög illa, eldurinn var aðallega þar. Það eru líklega miklar vatns- og reykskemmdir á neðri hæðinni. Ég bíð bara eftir því að fá að skoða inn í mína geymslu og sjá hvort eitthvað sé heilt,“ segir Björgvin.

Rúmlega 200 geymslur voru í húsinu en Björgvin segist finna til með fólkinu sem horfði bókstaflega á eigur sínar fuðra upp í gær. „Ég þurfti að taka utan um nokkra þarna en ég var með fyrstu á vettvang og var fram á hádegi. Ég fór svo aftur eftir hádegi og í gærkvöldi.

Björgvin Halldórsson.
Björgvin Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

Búslóð fyrstu íbúðar hvarf

Björgvin hitti til að mynda ungan strák sem ætlaði að ná í búðslóðina en sá hafði keypt sína fyrstu íbúð. „Hann kom þarna og sá að öll sú búslóð var farin en hann var að fá íbúðina sama dag. Þetta tekur svolítið á og þess vegna geri ég ekki mikið úr mínum hlutum,“ segir Björgvin sem tekur fram að það sem hann hafði í geymslu hafi „bara“ verið hlutir.

„Ég er þekktur fyrir að eiga svolítið af þeim og safna, kannski of mikið. Þetta er kannski smá „wake up call.“

Meðal þess sem var í geymslu Björgvin voru hlutir úr hljóðveri sem hann var nýbúinn að hreinsa út til að leigja öðrum. Auk þess var þar hluti af búslóð Svölu, teppi, málverk, þvottavél og fleira til.

„Ég er með nokkuð góða tryggingu og það verður að koma í ljós. Ég er hræddur um að það verði eftirmáli af þessu,“ segir Björgvin þegar hann er spurður um tryggingamál.

„Þetta á allt eftir að koma í ljós og við verðum bara að bíta í það súra ef svo fer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert