Ný kæra á hendur starfsmanni barnaverndar

Lögð hefur verið fram ný kæra á hendur fyrrverandi starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur, karlmanni á fimmtugsaldri, sem grunaður er um gróf kynferðisbrot gagnvart að minnsta kosti sjö börnum. Fréttablaðið greinir frá og hefur eftir heimildum. Kæran mun hafa borist rétt fyrir páska.

Mál mannsins hefur verið sent embætti héraðssaksóknara til ákærumeðferðar, en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum rennur út 13. apríl næstkomandi.

Fréttablaðið greinir frá því að lögregla neiti að tjá sig um málið en haft er eftir heimildum að vitni hafi verið boðuð til skýrslutöku vegna nýrrar kæru.

Maðurinn er grunaður um að hafa brotið gegn börnum á aldrinum 6 til 19 ára á árunum 2004 til 2010 og beitt þau grófu kynferðisofbeldi. Um er að ræða börn sem maðurinn hafði tengsl við, annars vegar í gegnum starf sitt og hins vegar sem ættingi eða vinur.

Í greinargerð sem lögregla lagði fram vegna gæsluvarðhaldskröfu í mars kom fram að um væri að ræða sjö kærendur, en að mati lögreglu eru framburðir þeirra trúverðugir. Þar sagði jafnframt að málsatvik allra málanna væru keimlík. Kærði hafi unnið sér inn traust brotaþola, látið þá sofa uppi í rúmi hjá sér þar sem hann hafi brotið gegn þeim í flestum tilfellum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert