Smálán „ekkert annað en óværa“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á Alþingi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á Alþingi.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp sem á að gera heildræna úttekt á starfsemi smálánafyrirtækja.

Þetta kom fram í umræðu um slík fyrirtæki á Alþingi í dag en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, var málshefjandi.

Þórdís Kolbrún sagði núverandi stöðu, út frá sjónarmiðum um neytendavernd, ekki vera eins og best verður á kosið. Hún sagði að í úrbótaskyni þurfi meðal annars að skilgreina smálánafyrirtæki sem fjármálafyrirtæki.

Hún bætti við að þegar væri hafin vinna við að fara yfir alla þætti smálána, þar á meðal að skilgreina hugtakið smálán.

„Óforskömmuð“ starfsemi

Bjarkey Olsen sagði það mál margra að smálánum sé beint að samfélagshópum sem búa við slakan efnahag og að slík starfsemi sé óforskömmuð.

Hún sagði löggjafann ekki hafa brugðist nægilega við þeim breytingum sem hafi orðið með tilkomu snjallsíma og benti á að það skjóti skökku við að fyrirtæki sem stundi smálánastarfsemi skuli ekki vera í hópi þeirra fyrirtækja sem fjármagna embætti skuldara.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

Talaði um smánarlán 

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að smálán ættu að vera kölluð smánarlán. Á eftir honum steig Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í pontu og sagði að smálánastarfsemin á Íslandi væri „ekkert annað en óværa sem þarf að uppræta með einhverjum hætti“.

Talaði hann um að fólk festist í gildru vegna kjara og hárra vaxta um leið og fyrsta lánið sé tekið.

Einnig nefndi hann að lagabreyting frá árinu 2013 hafi ekki dugað til að koma böndum á starfsemina.

Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. mbl.is/Hari

Vilja efla fjármálalæsi 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var sammála því að starfsemin væri óværa og taldi, eins og fleiri þingmenn, að efla þurfi fjármálalæsi á Íslandi. Jafnframt þurfi að að setja lög og reglur til að „hafa hemil á þeim fjármálaöflum sem nýta sér annaðhvort þekkingarleysi fólks eða aðstæður þess.“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að grípa þyrfti í taumana og hvatti til þess að starfsemi smálánafyrirtækja yrði starfsleyfis- og skráningarskyld.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði smálánafyrirtæki stunda okurlánastarfsemi, sem væri „fjárhagslegt ofbeldi gegn ákveðnum hópi fólks“.

Einnig kallaði hann fyrirtækin óværu og sagði: „Við notum kross og vígt vatn á óværu en ég efast um að það dugi í þessu tilfelli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert