Vilja fara til Sýrlands að leita Hauks

Tyrkir og bandamenn þeirra hafa nú stjórn yfir Afrín-héraði í …
Tyrkir og bandamenn þeirra hafa nú stjórn yfir Afrín-héraði í norðvesturhluta Sýrlands. Þessi mynd sýnir lögreglumenn sem styðja Tyrki í borginni Afrin þann 31. mars s.l. AFP

Fjölskylda og vinir Hauks Hilmarssonar eru ósátt með þau gögn sem þau fengu í gær frá utanríkisráðuneytinu varðandi tilraunir ráðuneytisins til að hafa uppi á Hauki í Afrín-héraði í Sýrlandi. Hópur vina Hauks vill fara til Sýrlands á eigin vegum að grennslast fyrir um afdrif hans.

Eva Hauksdóttir móðir Hauks skrifaði á vefsíðu sína í gær að henni hefði verið synjað um aðgang að hluta gagnanna sem tengjast rannsókn ráðuneytisins og að engin leið væri að sjá hvort þar væri um að ræða ómerkileg smáatriði eða mikilvægar upplýsingar. Fram kemur í skrifum hennar að hún ætli leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að reyna að fá gögnin afhent í heild sinni.

Lárus Páll Birgisson, vinur Hauks, hrópaði á Alþingismenn frá þingpöllum í gær og óskaði eftir hjálp frá þeim við að komast til botns í málinu. Í samtali við mbl.is í dag segir hann að hópur fólks sé tilbúinn að fara til Afrín-héraðs að leita að Hauki og vill hann að íslensk stjórnvöld óski eftir því við Tyrki að vinir Hauks fái leyfi til að fara inn á hernumin svæði í norðurhluta Sýrlands í leit að vísbendingum um afdrif hans.

„Við viljum að sjálfsögðu reyna að gera allt sem við getum og erum eiginlega búin að þrautreyna allar leiðir hérna heima þannig að í raun og veru er eini möguleikinn sem eftir er fyrir okkur að fara út sjálf og athuga hvers vísari við verðum,“ segir Lárus Páll. Hann segir Tyrki hafa fulla stjórn á svæðinu sem um ræðir.

Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði og vinur Hauks Hilmarssonar.
Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði og vinur Hauks Hilmarssonar. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir hafa öll völdin þarna, þeir eru bandamenn íslenska ríkisins. Af hverju gengur þetta þá svona treglega?“ spyr Lárus Páll, en hann segist telja, miðað við þær upplýsingar sem hann hafi fengið um gögnin sem utanríkisráðuneytið lét fjölskyldu Hauks í té, að helstu upplýsingarnar sem ríkið hafi núna séu komnar frá vinum Hauks, sem hafi verið í sambandi út til Sýrlands og rætt við félaga Hauks þar.

Bærinn Ba‘dinlī hugsaður sem upphafspunktur leitar

Þrátt fyrir að alls óvíst sé að leyfi fáist til þess að hópur almennra borgara frá Íslandi fari yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands til leitar að félaga sínum, eru Lárus Páll og fleiri búin að ákveða hver upphafspunktur leitarinnar yrði.

„Við höfum punkt sem við viljum byrja á, út frá fréttunum sem við fengum fyrst. Það er eitt bæjarnafn sem kemur upp aftur og aftur, Ba‘dinlī. Við vitum að það var sprengt þar 25. febrúar.  Ég hef séð viðtal við bæjarbúa þar, þar sem þeir eru að benda á hvar þetta er. Þannig að það er í raun og veru planið, byrja þar, tala við íbúa, sjá hvort þeir viti eitthvað. Hann Haukur hefur skorið sig dálítið út þarna með sitt ljósa hár og ef hann hefur verið þar á ferð þá ætti fólk að muna eftir honum,“ segir Lárus Páll.

Haukur Hilmarsson.
Haukur Hilmarsson. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að innfæddir gætu eflaust vísað á staðina þar sem sprengjurnar féllu og hægt væri að leita að einhverjum líkamsleifum þar. „Ef að þær finnast ekki þar þá er hann einhvers staðar annars staðar. Það er allavega þessi útgangspunktur sem við viljum byrja á að tékka á og svo þarf bara að rekja sig eitthvað áfram ef það gengur ekki upp,“ segir Lárus.

Hann segir fólk hafa verið tilbúið að fara út til Sýrlands allt frá því að fyrstu fregnir bárust af máli Hauks, en hópurinn hafi ákveðið að bíða eftir því að mál Hauks yrði kannað eftir öðrum leiðum.

„Nú er sá tími kominn að það sé búið að þrautreyna allt og þetta er eini sénsinn sem er eftir.“

Óttast að Haukur sé í haldi Tyrkja

Fyrstu fregnir af máli Hauks greindu frá því að hann hefði látist í bardaga með útlendingahersveitinni International Freedom Battalion (IFB) sem barðist fyrir málstað Kúrda. IFB sendi frá sér tilkynningu, þar sem fram kom að Haukur hefði látið lífið í árás Tyrkja.

Það hefur hvergi fengist staðfest frá fyrstu hendi.

„Það sá hann enginn falla og það veit enginn neitt. Hann bara hvarf,“ segir Lárus og bendir á að það sé einfaldlega venja hersveitanna að auglýsa menn látna ef þeir skili sér ekki til baka frá svæðum þar sem bardagar geysa.

„Það sá enginn lík hans eða neitt. Allir þeir sem voru með honum þarna eru dánir og þau lík hafa fundist. Þannig að þetta dálítið skrítið hvernig hann bara hverfur. Þess vegna læðist að okkur sá grunur að hann gæti jafnvel verið í haldi hjá Tyrkjum,“ segir Lárus.

Þá hugsun segir Lárus að erfitt sé að hugsa til enda.

„Það er svona óhugnanlegasta hugsunin sem að fer í gegnum hausinn á manni núna. Þá er sorglegt og erfitt að segja það, en það væri skárra að finna eitthvað lík, í staðinn fyrir að vita af honum í einhverjum ömurleika.“

Héraðshöfuðborgin Afrin er hér merkt inn á kortið.
Héraðshöfuðborgin Afrin er hér merkt inn á kortið. mbl.is/AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert