„Þetta hafði gríðarlega mikil áhrif á mig og hefur breytt mér mikið. Ég er allt annar maður í dag en ég var áður. Það hefur bæði komið slæmt og gott úr þessu. Ég hef áttað mig á því að ég hef stuðning ef það koma upp vandamál og lít á þetta sem uppbyggingu fyrir bjartari framtíð.“ Þetta segir ungur maður sem í ágúst á síðasta ári lagði fram kæru á hendur fyrrverandi starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur, fyrir að hafa brotið gegn honum kynferðislega þegar hann var barn.
Brotin eiga að hafa átt sér stað á árunum 2004 til 2010, þegar hann var aldrinum 8 til 14 ára. Maðurinn var stuðningsfulltrúi hans og aðstoðaði hann meðal annars við heimanám.
„Ég fór að hugsa út í það hvort hann væri að gera þetta við fleiri og það fékk mig til að kæra hann síðasta haust. Ég vildi ekki að fleiri þyrftu að lenda í því sem ég lenti í með honum,“ segir hann um ástæðu þess að hann ákvað að stíga skrefið til fulls nú og kæra.
Í kjölfar þess að fjallað var um málið í fjölmiðlum lögðu fleiri fram kæru á hendur manninum, en hann er grunaður um að brotið kynferðislega gegn að minnsta kosti sjö börnum á tíu ára tímabili. Embætti héraðssaksóknara hefur staðfest að maðurinn verður ákærður, en ákærufrestur rennur út á morgun.
Ungi maðurinn segist þó hafa tekið þá ákvörðun fyrir löngu að hann ætlaði að kæra. „Ég vildi bíða með þetta þegar ég var 16 ára. Ég vildi bíða þangað til ég yrði lögráða og væri búinn að melta þessa hluti,“ útskýrir hann. Þá vildi hann einnig finna rétta lögfræðinginn, en það tók lengri tíma en hann átti von á.
Hann er rúmlega tvítugur í dag og mun sterkari en hann var fyrir nokkrum árum. Hefði hann farið fyrr af stað hefði hann ekki verið tilbúinn að takast á við allt sem fylgir því að kæra kynferðisbrot. Að þurfa að rifja ofbeldið upp aftur og aftur og svara erfiðum spurningum. Hann hefur unnið mikið í sjálfum sér með góðri aðstoð. „Ég fékk sálfræðiaðstoð og hef haft frábæran stuðning af foreldrum mínum og systkinum.“
Hann var bæði tilbúinn og ákveðinn þegar kæran var lögð fram í haust. Hann bjóst þó ekki við að fleiri myndu kæra í kjölfarið, enda hélt hann að hann væri sá eini. „Ég reiknaði ekki með þessu. Ég hélt ég væri sá eini. Þegar ég frétti að það væru fleiri, og svona margir, þá breyttist hugarfarið aðeins. Mér fannst ég hafa meiri stuðning en ég átti von á.“
Líkt og áður sagði var maðurinn einhvers konar stuðningsfulltrúi hans og sem barn dvaldi hann reglulega á heimili á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík sem maðurinn hafði umsjón með. Að jafnaði dvöldu þar nokkur börn í senn. Tvö systkini hans dvöldu einnig um tíma á heimilinu og er hann talinn hafa brotið gegn þeim líka. Maðurinn lét hann sofa uppi í rúmi hjá sér þar sem hann braut gegn honum.
Ungi maðurinn sagði ekki frá ofbeldinu fyrr en tveimur árum eftir að því lauk. 16 ára gamall sagði hann móður sinni frá því sem hafði gerst. „Ég ætlaði aldrei að segja foreldrum mínum frá þessu. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir þetta. Það var virkilega erfitt að segja frá þessu. Fyrst skildi ég ekki af hverju móðir mín grét því ég var ekki mjög opinn tilfinningalega þá.“
Hann man vel eftir því hvaða flóknu tilfinningar hann upplifði á meðan ofbeldið stóð yfir. „Fyrst þegar hann byrjaði á þessu þá skildi ég ekkert hvað var í gangi, ég var í sjokki. Mér leið illa en ég fór að venjast þessu. Ég hélt í fyrstu að þetta væri eðlilegt, en ég man eftir að hafa spurt sjálfan mig að því þegar ég fermdist hvort þetta væri eðlilegt eða ekki. Smám saman áttaði ég mig á því að svo var ekki. Ég áttaði mig líka á því af hverju hann var að kaupa mig. Hann dekraði við mig, leyfði mér að vera í tölvunni og gaf mér pening fyrir nammi.“ Sem barn vildi hann auðvitað ekki missa af þessu. Taldi sér trú um að svona ætti þetta að vera. „Á þeim tíma hélt ég að ég væri öruggur, en ég hafði efasemdir og spurði mig af hverju hann væri að þessu.“
Og það voru fleiri sem spurðu spurninga. „Strákarnir sem voru vistaðir hjá honum spurðu manninn oft af hverju ég væri uppi í rúminu hans. Bróðir mannsins spurði mig líka einu sinni hvort hann væri eitthvað skrýtinn í kringum mig. Bróðirinn var drykkfeldur á þessum tíma þannig ég veit ekki hvort hann man eftir þessu.“ Ungi maðurinn telur að bróðurinn hafi annað hvort grunað eða vitað að eitthvað óeðlilegt var í gangi. Hann segir börn hafa sótt í manninn því hann leyfði þeim að gera það sem foreldrarnir leyfðu ekki að staðaldri.
Eftir því sem árin liðu fór ofbeldið að hafa meiri og meiri áhrif á hann. „Ég var reiður út allt og alla. Reiður út í allan heiminn fyrir að hafa sett mig á þennan stað.“ Hann missti líka sambandið við vini sína um tíma og telur ofbeldið hafa átt sinn þátt í því.
Hann segist ekki vera sorgmæddur í dag, en honum þykir leitt að svo margir hafi lent í því sama og hann. Honum var létt þegar hann frétti að maðurinn yrði ákærður, enda bjóst hann ekki við því. „Ég reiknaði ekki með því að þetta færi svona langt. Sérstaklega af honum var ekki vikið úr starfi eða neitt fyrst þegar við byrjuðum með málið.“
Frá því kæran var lögð fram og þar til málið var tekið til rannsóknar hjá lögreglu liðu fjórir mánuðir. Á þeim tíma sendi Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður hans, lögreglu ítrekaðar fyrirspurnir um stöðu málsins. Sævar hefur greint frá því að það hafi komið skýrt fram í þeim gögnum sem lögð voru fram með kærunni að maðurinn starfaði enn með börnum. Þá hefur komið fram í umfjöllun um málið í fjölmiðlum að maðurinn hafði áður verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, en það mál var talið fyrnt og því látið niður falla. Þá mun maðurinn einnig hafa verið tilkynntur til Barnaverndar Reykjavíkur að minnsta kosti einu sinni, en sú tilkynning skilaði sér ekki réttan farveg.
Þegar kæran var lögð fram starfaði hann á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti sem rekið er af Barnavernd Reykjavíkur, og starfaði þar óhindrað þar til hann var loks handekinn og færður í gæsluvarðhald þann 19. janúar síðastliðinn. Lögregla viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð við meðferð málsins og í kjölfarið var farið í umtalsverðar breytingar á skipulagi kynferðisbrotadeildarinnar. Þá voru verkferlar skoðaðir hjá barnavernd og áhættumat gert á starfseminni. Nú hefur til að mynda verið opnað fyrir rafrænar ábendingar á vef stofnunarinnar.
Það er því óhætt að segja að kæran sem ungi maðurinn lagði fram hafi haft margvísleg áhrif og í raun umturnað kerfinu eins og það var. Hann vonast að minnsta kosti til að þetta hafi þau áhrif á öðruvísi verði tekið á sambærilegum málum í framtíðinni. „Ég ætla ekki að taka kredit fyrir því að gera umhverfið betra, en vonandi verður það bætt. Það sést í raun ekki fyrr en það kemur annað svona mál upp hvort það verði staðið við það sem sagt hefur verið.“