Embætti héraðssaksóknara gaf í dag út ákæru í máli karlmanns á fimmtugsaldri sem er sakaður um að hafa beitt börn grófu kynferðisofbeldi en hann starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg.
Gæsluvarðhald yfir manninum hefur einnig verið framlengt um fjórar vikur. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari gat að öðru leyti ekki tjáð sig um efni ákærunnar þar sem hún hefur ekki verið birt. Þar sem um er að ræða lokað þinghald verður héraðsdómur að upplýsa um efni ákærunnar þegar þrír sólarhringar eru frá birtingu. Ákæran verður því birt á mánudag.
Varðandi nýja kæru sem lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist vegna kynferðisbrota mannsins segir Kolbrún að sönnunarstaða í því máli verði skoðuð að rannsókn lokinni.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar og er grunaður um að hafa brotið gegn börnum á aldrinum 6 til 19 ára á árunum 2004 til 2010 og beitt þau grófu kynferðisofbeldi. Um er að ræða börn sem maðurinn hafði tengsl við, annars vegar í gegnum starf sitt og hins vegar sem ættingi eða vinur.