Ný kæra sem hefur borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna kynferðisbrots stuðningsfulltrúa barnaverndar er ekki meðal þeirra sjö mála sem lögreglan sendi til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar fyrir páska.
Frétt mbl.is: Ný kæra á hendur starfsmanni barnaverndar
„Ég þekki til þessa máls. Þetta er aðili sem ég hef heyrt um í gegnum umbjóðanda minn,“ segir Sævar Þór Jónsson, umbjóðandi annars brotaþola í málinu, í samtali við mbl.is. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um kæruna en staðfestir að einstaklingurinn sem lagði fram kæruna var í umsjá stuðningsfulltrúans um tíma.
Ákæra í máli mannsins verður gefin út í dag en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar og er grunaður um kynferðisbrot gegn að minnsta kosti sjö börnum á tíu ára tímabili.
Frétt mbl.is: Stuðningsfulltrúinn verður ákærður
Kæran sem nú er til rannsóknar er sú níunda í röðinni, en eitt af þeim átta málum brotaþola sem lögreglan hefur haft til rannsóknar var ekki sent til héraðssaksóknara. Nýja kæran barst eftir að lögreglan sendi sjö mál til meðferðar hjá héraðssaksóknara og því er ekki útilokað að málið verði sent þangað þegar rannsókn lögreglu er lokið.
Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út í dag. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er ekki heimilt að láta sakborning sæta gæsluvarðahaldi lengur en tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfesti við mbl.is í gær að ákæra verður gefin út áður en tólf vikna ákærufrestur rennur út í dag.