Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli stuðningsfulltrúa sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir ítrekuð og langvarandi kynferðisbrot gegn börnum og nauðganir. Skal maðurinn sæta varðhaldi til 11. maí.
Fram hefur komið, að lögreglan hefur haft til rannsóknar mál þar sem maðurinn er grunaður um kynferðisbrot gegn sjö einstaklingum, sem varðað geta allt að 16 ára fangelsi. Hann var ákærður 13. apríl vegna meintra brota gegn fimm einstaklingum.
Brotin sem maðurinn er ákærður fyrir ná aftur til ársins 1998. Maðurinn er m.a. ákærður fyrir að hafa nýtt sér yfirburði sína gagnvart börnunum og traust þeirra og trúnað og beitti þau ofbeldi og/eða notfærði sér ástand þeirra. Samkvæmt ákærunni áttu brotin sér jafnan stað þegar börnin gistu í rúmi mannsins á heimili hans en í nokkrum tilvikum á öðrum vettvangi.
Manninum var upphaflega gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 19. janúar til 16. febrúar. Frá þeim tíma hefur hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.
Að mati héraðssaksóknara er maðurinn undir sterkum grun um ítrekuð kynferðisbrot gegn börnum og fullorðnum einstaklingi með andlega fötlun.
Ákært hafi verið meðal annars fyrir ítrekuð brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðunum geti varðað allt að 16 ára fangelsi.
Að mati ákæruvaldsins eru brotin þess eðlis að nauðsynlegt er, með tilliti til almannahagsmuna, að tryggja áfram að maðurinn gangi ekki laus á meðan mál hans séu til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum.
Maðurinn mótmælti kröfunni og krafðist þess að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi yrði markaður mun skemmri tími.
Maðurinn var hins vegar úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 11. maí, sem fyrr segir.