„Það er mikið tjón, bæði af eldinum og ekki síður vatnstjón. Þetta var í lokuðum rýmum sem við þurftum að sprauta inn í og þá lak náttúrlega vatn út um allt,“ segir Birgir Finnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Slökkvistarf stendur enn yfir við Perluna þar sem eldur kviknaði í klæðningu í heitavatnstanki við bygginguna síðdegis. Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út rétt fyrir klukkan sex en fækkað hefur í hópnum og sinna nú um 15-20 slökkviliðsmenn störfum á vettvangi.
Frétt mbl.is: Allt tiltækt slökkvilið kallað út
„Við erum ennþá að rífa klæðninguna af tankinum og elta þá glóð sem leynist þar, en þetta er meira kolað timbur sem leynist glóð í,“ segir Birgir. Erfiðlega gekk að slökkva eldinn í fyrstu þar sem upptök hans voru milli þilja og járnklæðning hindraði aðgang slökkviliðsmanna að eldinum.
Ekki er talin hætta á að eldur blossi upp. „Það er nánast enginn reykur en við erum að reyna að tryggja að þetta sé vel frá gengið þegar við förum,“ segir Birgir, sem telur að slökkvistarfi ljúki fyrir miðnætti. Slökkviliðið verður áfram með vakt á meðan þörf þykir áður en lögreglan tekur við svæðinu.
Of snemmt er að fullyrða um eldsupptök en talið er að eldurinn hafi kviknað út frá vinnu iðnaðarmanna sem voru við störf við tankinn.