Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur enn að því að afla gagna í Skáksambandsmálinu svo kallaða. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
„Það er enn til rannsóknar,“ segir hann og kveður vinnuna ganga vel. Ekki liggi þó fyrir hvenær málið verði sent á ný til héraðssaksóknara, né heldur hvort og þá hvenær ákæru sé að vænta.
Mál Sigurðar Kristinssonar, sem nú sætir farbanni eftir 12 vikna gæsluvarðhald, vegna þáttar síns í þessu umfangsmikla fíkniefnamáli, var nýlega sent aftur til lögreglunnar til frekari gagnaöflunar.
Sigurður er eiginmaður Sunnu Elviru sem sætti farbanni um nokkurra vikna skeið, eftir að hafa lamast við fall á heimili sínu á Spáni.