Sigurður Kristinsson, fyrrverandi eigandi verktakafyrirtækisins SS hús, óskaði í Héraðsdómi Reykjaness eftir fresti þangað til hann tekur afstöðu til ákæru embættis héraðssaksóknara gegn honum vegna reksturs félagsins.
Málinu var frestað til 15. maí við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Sigurður ásamt tveimur öðrum eru ákærð fyrir meiri háttar skattalagabrot. Sigurður er eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur.
Ásamt Sigurði er tengdamóðir hans og móðir Sunnu, sem vann sem bókari og var stjórnarformaður félagsins, ákærð í málinu. Þá er arftaki Sigurðar sem stjórnandi félagsins einnig ákærður. Hann neitaði sök í héraðsdómi í morgun.
Tengdamóðir Sigurðar var ekki viðstödd þingfestinguna vegna veikinda.
Í byrjun febrúar greindi Fréttablaðið frá því að félagið væri til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra og að meint undanskot eigna hlypu á hundruðum milljóna. Þá væri einnig til rannsóknar mikil vanskil vörsluskatta.
Sigurður er einnig grunaður um fíkniefnainnflutning í tengslum við Skáksambandsmálið sem kom upp í janúar. Var Sigurður þá staddur á Spáni og slasaðist Sunna stuttu seinna og lamaðist á heimili þeirra þar í landi. Sigurður kom hingað til lands í framhaldinu og var handtekinn. Landsréttur staðfesti fjögurra vikna farbann yfir honum í síðustu viku vegna gruns um að hafa verið viðriðinn fíkniefnainnflutninginn.