Ákærður fyrir brot gegn fjórum börnum

Héraðssaksóknari.
Héraðssaksóknari. mbl.is/Ófeigur

Karlmaðurinn sem er sakaður um að hafa beitt börn grófu kynferðisofbeldi er hann starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg er ákærður fyrir brot gegn fjórum börnum í málinu sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Þetta kemur fram í ákæru embættis héraðssaksóknara.

Maðurinn neitaði sök þegar málið var þingfest í morgun. Gæsluvarðhald yfir honum hefur verið framlengt um fjórar vikur

Krefst 8 milljóna í miskabætur

Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er í fyrsta lagi ákærður í fimm liðum fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn dreng þegar hann var á aldrinum 7 til 13 ára á árunum 2004 til 2010.

Brotin eru sögð hafa átt sér stað í rúmi mannsins, í bifreið á leið í útilegu og á skrifstofu mannsins.

Í einkaréttarkröfu er þess krafist að manninum verði gert að greiða 8 milljónir króna í miskabætur, auk vaxta. Einnig er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða honum 800 þúsund krónur í skaðabætur, auk vaxta, vegna útlagðs sjúkrakostnaðar. Ennfremur er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 380.556 krónur vegna lögmannskostnaðar.

„Nýtti sér yfirburði sína“

Í öðru lagi er maðurinn ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn stúlku á árunum 2005 til 2008 þegar hún var 7 til 10 ára og gisti í rúmi á heimili hans.

„Með háttseminni nýtti ákærði sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað sem fjölskylduvinur er hafði tekið að sér það hlutverk að gæta hennar fyrir foreldra hennar, auk þess að beita hana ofbeldi og notfæra sér að hún gat ekki spornað við háttseminni sökum svefndrunga,“ segir í ákærunni.

Í einkaréttarkröfu er þess krafist að maðurinn greiði meintu fórnarlambi 1.5 milljónir króna í miskabætur, auk vaxta.  Þess er krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Meint brot á heimilum og í sumarhúsi

Maðurinn er í þriðja lagi ákærður fyrir að hafa nauðgað og framið kynferðisbrot gegn dreng er hann var 6 til 12 eða 13 ára á árunum 1998 til 2004 eða 2005. Meint brot áttu sér stað á heimilum ákærða, á heimili drengsins og í sumarhúsi.

Í einkaréttarkröfu er gerð krafa um 3 milljóna miskabætur.

Gisti í rúmi mannsins

Loks er maðurinn ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn dreng þegar hann var 13 og 14 ára á árinu 2002 eða 2003 og gisti í rúmi mannsins á heimili hans.

Í einkaréttarkröfu er gerð krafa um 1.5 milljónir króna í miskabætur úr hendi ákærða.

Embættinu barst eitt mál til viðbótar þeim sem bárust fyrir páska. Það mál er enn til meðferðar hjá embættinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert