Föst búseta grundvöllur lögheimilis

Reykjarfjarðarkamb, sem ævinlega er kallaður Kamburinn, ber tignarlega við himin …
Reykjarfjarðarkamb, sem ævinlega er kallaður Kamburinn, ber tignarlega við himin við byggðina á Gjögri í Árneshreppi í vetur. mbl.is/Sunna

Oft er meira um lögheimilisflutninga rétt fyrir kosningar en í öðrum árum. Skýringarnar geta verið eðlilegar; fólk hefur flutt en láðst að flytja lögheimili sitt og vill kjósa þar sem það er búsett hverju sinni. „En þar sem þessir flutningar [í Árneshrepp] voru hlutfallslega mjög miklir þá ákváðum við að skoða þá nánar,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands og staðgengill forstjóra stofnunarinnar, í samtali við mbl.is.

Sautján einstaklingar fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp, fámennasta sveitarfélag landsins, á tímabilinu 24. apríl til 4. maí. Kjörskrárstofn vegna komandi sveitarstjórnarkosninga miðast við 5. maí.  „Ástæðan fyrir því að stofnunin fer að skoða málið er hvað þetta er mikið á stuttu tímabili og teknar voru til skoðunar skráningar sem komu inn þessar síðustu tvær vikur fyrir viðmiðunardag kjörskrár,“ segir Ástríður. Málið hafi komið í ljós við reglulega yfirferð á gögnum hjá stofnuninni.

Lögbundið hlutverk Þjóðskrár

Hún segir Þjóðskrá hafa það hlutverk með lögum að hafa eftirlit með lögheimilisskráningum fólks og fjalla um mál sem tengjast þeim. Sjái stofnunin eitthvað athugavert við skráningar á lögheimili einstaklinga hefur hún heimild til þess að stofna svokölluð frumkvæðismál og óska eftir gögnum frá viðkomandi og það hafi nú verið gert í þessu tiltekna máli. Ástríður segir slík mál reglulega koma upp en að sjaldgæft sé hins vegar að svo miklir flutningar verði á svo stuttu tímabili í sveitarfélagi af þessari stærð.

Minnisblað um stöðu málsins

Lögmannsstofan Sókn hefur ritað minnisblað vegna málsins og var það gert að beiðni oddvita Árneshrepps, að sögn Jóns Jónssonar hæstaréttarlögmanns sem skrifar undir blaðið. Í því eru teknar saman upplýsingar um stöðu málsins hjá Þjóðskrá. Þar segir að  lögheimilisflutningarnir beri með sér að vera „málamyndaskráningar“ vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga. „Eðlilegt er að fylgjast með framvindu mála hjá Þjóðskrá og boða hreppsnefndarfund þegar stofnunin hefur fjallað um mál þessara lögheimilisskráninga. Miðað við það þarf hreppsnefnd að fella aðila út af kjörskrá til samræmis við ákvarðanir Þjóðskrár Íslands,“ segir m.a. í minnisblaðinu sem var ritað síðastliðinn mánudag, 7. maí.

Á hverju sumri kemur hópur manna til strandveiða í Árneshreppi.
Á hverju sumri kemur hópur manna til strandveiða í Árneshreppi. mbl.is/Golli

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur ekki verið fjallað um málið í hreppsnefnd Árneshrepps sem fundaði síðast 8. maí. Hvorki var fjallað um fjölda lögheimilisskráninga né minnisblaðið sem oddviti fól lögmannsstofunni að vinna. Oddvitinn sendi það hins vegar með tölvupósti til allra hreppsnefndarmanna um miðjan dag í gær, 10. maí. Næsti fundur hreppsnefndar er á þriðjudag í næstu viku.

Heimild til að leita aðstoðar lögreglu

Þegar gögn þau sem Þjóðskrá Íslands hefur kallað eftir berast mun hún taka ákvörðun um næstu skref í málinu. Gögnin geta verið tekin gild og lögheimilisskráningin þá staðfest en sé nánari rannsóknar þörf hefur stofnunin heimild til að leita aðstoðar lögreglu um hvort að fólk hafi sannarlega fasta búsetu þar sem það er skráð með lögheimili.

„Til að eiga lögheimili á ákveðnum stað þarf fólk, samkvæmt lögheimilislögunum, að eiga þar fasta búsetu,“ segir Ástríður. Í 1. grein laga um lögheimili segir:  „Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Á þessu eru þó undantekningar, m.a. þegar námsmenn eiga í hlut. Þeir hafa heimild til að skrá lögheimili sitt í sínum heimahögum þótt þeir séu búsettir annars staðar vegna náms.

Fáir búa í hreppnum árið um kring

Af þeim rúmlega 40 einstaklingum sem höfðu lögheimili í Árneshreppi í vetur dvaldi um helmingurinn þar að jafnaði. Spurð hvort að Þjóðskrá muni almennt óska eftir gögnum frá þessum hópi og fara fram á sönnun á fastri búsetu samkvæmt skilgreiningu laganna segist Ástríður ekki geta svarað því á þessari stundu. Slíkt hafi ekki verið til umræðu. „Það er ekkert sem við erum með til skoðunar eins og er.“

Í þessu sambandi eru líka ákveðnar skyldur lagðar á sveitarfélagið sem byggjast á ákvæðum laga um þjóðskrá og almannaskráningu. Sveitarfélög fá þann 1. desember ár hvert íbúaskrá og ber að gera athugasemdir við þá sem þau telja vantalda eða oftalda.

Ónákvæmt orðalag

Einstaklingunum sautján voru þann 4. maí send bréf þar sem þeir voru beðnir um gögn sem sýni fram á að núverandi lögheimilisskráning sé rétt. Í bréfinu stendur m.a. orðrétt: Þjóðskrá Íslands hafa borist upplýsingar sem benda til að þú búir ekki að xxx, 524 í Árneshreppi en samkvæmt þjóðskrá er lögheimili þitt skráð þar“.

Spurð um þetta orðalag, að upplýsingar hafi borist stofnuninni, segir Ástríður að um stöðluð bréf sé að ræða. „Þetta kemur fram við innra eftirlit hjá okkur,“ ítrekar hún. „Það hefði mátt orða þessi bréf nákvæmar.“

24. apríl höfðu 44 lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. Næstu …
24. apríl höfðu 44 lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. Næstu tvær vikurnar bættust 17 við. mbl.is/Golli

Krefjast gagna frá Þjóðskrá

Ástríður segir að ýmsar skýringar geti verið á lögheimilisflutningum og að þær geti verið góðar og gildar. „Það er alls ekki þannig að við förum af stað með svona mál með einhverja niðurstöðu í huga. Athugun kann að leiða í ljós að ekkert athugavert er á ferðinni.“

Hinir nýju íbúar Árneshrepps fengu viku til að bregðast við bréfi Þjóðskrár. Sá frestur rann út í dag. Mbl.is hefur heimildir fyrir því að a.m.k. tíu einstaklingar sem fengu bréf hafi mótmælt þeim og krafist gagna frá stofnuninni.

Á næstu dögum mun Þjóðskrá fara yfir þau svör og þau gögn sem bárust og meta hvert tilfelli fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka