„Lögmaðurinn sem við erum með, Guðni [Á. Haraldsson] hjá Löggarði tjáði sig um ábyrgð Geymslna og þá fór boltinn að rúlla af stað,“ segir Ágúst Valsson um hópmálsókn sem er í undirbúningi vegna eldsvoðans í Miðhrauni í apríl.
Í framhaldinu var haldinn fundur með Guðna og ákveðið að fara með málið lengra, en lögmaðurinn hafði tjáð sig um málið í fjölmiðlum.
„Við teljum að Geymslur beri þarna ábyrgð samkvæmt lögum um þjónustukaup. Þau geta ekki firrt sig ábyrgð á þeim lögum,“ segir Ágúst, sem er einn þeirra sem missti eigur í brunanum.
Spurður hversu margir taki þátt í málsókninni nefnir hann að 250 geymslur hafi verið í húsnæði Geymslna og að einhverjir hafi verið með tvær geymslur. „Það eru sirka tvö hundruð manns sem hafa misst sitt í þessum bruna en einhverjir náðu að bjarga sínu á fyrstu hæðinni og urðu fyrir minni skaða. Við ætlum að reyna að fá sem flesta á fundinn. Þar verður rætt hvaða möguleika við höfum og við ætlum að leyfa öllum að bera fram spurningar til lögmanna.“
Þar á Ágúst við fund sem er fyrirhugaður næstkomandi mánudag á 2. hæð Ásvallalaugar í Hafnarfirði klukkan 20 fyrir þá sem eiga kröfur í málinu.
Að sögn Ágústs verða málin þrjú talsins, eða fyrir þá sem voru með öllu ótryggðir, fyrir þá sem voru með 15% heimilistryggingu og þá sem voru fulltryggðir.
Hann bætir við að viðskiptaskilmálar hjá Geymslum hafi kveðið á um að um húsaleigusamning hafi verið að ræða en ekki þjónustusamning. Þetta segir hann óeðlilegt.