Undirbúa hópmálsókn vegna brunans

Frá Miðhrauni.
Frá Miðhrauni. mbl.is/RAX

Hópur fólks sem missti eigur sínar í brunanum hjá Geymslum í Garðabæ í byrjun apríl undirbýr nú að leita réttar síns með málsókn á hendur eigendum Geymslna.

Um prófmál verður að ræða þar sem látið verður reyna á skaðabótaskyldu þeirra sem bera ábyrgð á því tjóni sem þarna varð, að því er kemur fram í tilkynningu.

Lögmenn sem rætt hefur verið við telja að þeir sem urðu fyrir tjóni í brunanum séu í sterkri stöðu til að fá meiri bætur en boðist hafa til þessa og að ábyrgð Geymslna verði staðfest.

Því hefur verið boðað til fundar með þeim sem urðu fyrir tjóni í brunanum þar sem lögmaður mun fara yfir stöðu mála og þær leiðir sem farnar verða.

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna væntanlegrar málhöfðunar verði hóflegur en því fleiri sem taka þátt í þessari aðgerð því lægri verður kostnaðurinn sem hver og einn þarf að bera.

Fundurinn verður haldinn 14. maí kl. 20:00 á 2. hæð Ásvallalaugar í Hafnarfirði og verður hann einungis opinn þeim sem eiga kröfur í þessu máli. 

Opnuð hefur verið heimasíðan www.geymslubruninn.is þar sem frekari upplýsingum verður miðlað eftir því sem málinu vindur fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka