Dætur Ólafs Valssonar, kaupfélagsstjóra í Árneshreppi, eru meðal þeirra sem fluttu lögheimili sitt í hreppinn nýverið. Þær eru báðar háskólanemar en samkvæmt lögum mega námsmenn hafa lögheimili í heimahögum, þótt þeir dvelji að jafnaði við nám annars staðar.
Í yfirlýsingu sem Ólafur sendi fjölmiðlum í dag kemur fram að dætur hans hafi fengið bréf frá Þjóðskrá Íslands þar sem fram hafi komið að upplýsingar hefðu borist stofnuninni sem bentu til þess að þær byggju ekki hjá Ólafi í Árneshreppi. Þær hafi þá bent Þjóðskrá á að þær væru námsmenn og málið hafi þar með fallið um sjálft sig.
Í fréttum síðustu daga hefur komið fram að sautján til átján manns hafi flutt lögheimili sitt í Árneshrepp á tveggja vikna tímabili í lok apríl til byrjun maí. Í fréttum RÚV í gær var haft eftir Óskari Kristinssyni að hann hefði flutt lögheimili sitt að bænum Dröngum, þar sem hann er fæddur og uppalinn, og þar sem hann er með annan fótinn allt árið. Eiginkona hans hafi gert slíkt hið sama. Hins vegar sagði Óskar, í samtalinu við RÚV, að níu manns til viðbótar hefðu á síðustu vikum flutt lögheimili sitt að Dröngum í óþökk landeigenda.
Hrafn Jökulsson, sem einnig er meðal þeirra sem nýverið flutti lögheimili sitt í Árneshrepp, sagði í samtali við Vísi.is að hann hefði tekið ákvörðun fyrir löngu um að fara á sínar gömlu slóðir fyrir norðan en hann hefur haft tengsl við sveitina í um fjörutíu ár. „Það er bara óháð og ég er eins og margir ungir menn að gefast upp á húsnæðisskorti í Reykjavík þannig að það er gott að flytja sig um set í sveitina.“
Hér að neðan fer yfirlýsing Ólafs Valssonar, kaupfélagsstjóra í Norðurfirði, í heild:
Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið fjallað um dóttur mína og stjúpdóttur sem hluta af hópi sem sakaður er um málamyndalögheimilisskráningu. Þetta kom upphaflega fram í minnisblaði sem ritað var fyrir oddvita Árneshrepps, nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Þar er einnig talað um hugsanleg kosningaspjöll en minnisblaðið var gert af lögmanni sem oddviti réði [sic] í fyrra til að tryggja áform erlendra auðmanna um virkjun Hvalár. Í dag sakar svo 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis einhvern hóp um að undirbúa fjandsamlega yfirtöku á sveitarfélagi.
Staðreyndin er sú að þessar dætur mínar eru háskólanemar og halda heimili með mér. Þær fengu bréf frá Þjóðskrá um að borist hefðu upplýsingar sem bentu til þess að þær byggju ekki hjá mér. Þær bentu Þjóðskrá á að þær eru námsmenn og fellur málið einfaldlega um sjálft sig.
Það er hinsvegar ólíðandi að oddviti Árneshrepps efni til fjölmiðlafárs með útsendingu minnisblaðs lögmanns, sem borgaður hefur verið af HS Orku í gegnum dótturfélag á Ísafirði. Ég frábið mér þessar nornaveiðar og aðferðir við að verja hagsmuni auðmannanna, en hirði ekki um að endursegja boð þeirra um eingreiðslur til hreppsins til að liðka fyrir leyfi til virkjunar Hvalár.
Utansveitarmönnum er auðvitað velkomið að hafa skoðun á stjórnarháttum í Árneshreppi en leikreglur lýðræðis verða að gilda hér einsog annarsstaðar.
Ólafur Valsson
Kaupmaður í Norðurfirði á Ströndum