Sigurður játaði sök að hluta

Sigurður Kristinsson neitaði sök að hluta við fyrirtöku máls gegn …
Sigurður Kristinsson neitaði sök að hluta við fyrirtöku máls gegn honum vegna meintra meiri háttar skattalagabrota við Héraðsdóm Reykjaness í dag, en gekkst þó við hluta þeirra brota sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákæru. mbl.is/Hari

Sig­urður Krist­ins­son, fyrr­ver­andi eig­andi verk­taka­fyr­ir­tæk­is­ins SS húsa, neitaði sök að hluta við fyrirtöku máls gegn honum vegna meintra meiri háttar skattalagabrota við Héraðsdóm Reykjaness í dag, en gekkst þó við hluta þeirra brota sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákæru.

Í þeim hluta ákærunnar er Sigurður neitar, eru honum gerð að sök skil á röngum virðisaukaskattskýrslum þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalinn á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga og um leið vanframtalinn virðisaukaskatt.

Sá hluti ákærunnar sem Sigurður gekkst við í Héraðsdómi varðar annars vegar vanskil á virðisaukaskatti á árinu 2015. Hins vegar að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á skilagrein félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna á tilteknu tímabili.

Sig­urður var ákærður fyrir skattalagabrotin ásamt tveimur öðrum, en hann er eig­inmaður Sunnu El­viru Þor­kels­dótt­ur sem lamaðist á heimili þeirra á Spáni fyrr á þessu ári og var sett í farbann þar í kjölfarið. Því var síðar aflétt og Sunna Elvira er nú stödd hér á landi.

Ásamt Sig­urði voru ákærð tengda­móðir hans, móðir Sunnu, sem vann sem bók­ari og var stjórn­ar­formaður fé­lags­ins og arftaki Sigurðar sem stjórn­andi fé­lags­ins. Neitaði hann sök við þingfestingu málsins. Móðir Sunnu neitaði sök við fyrirtöku málsins í dag.

Við þingfestingu málsins 30. apríl sl. í Héraðsdómi Reykja­ness óskaði Sigurður eftir fresti til að taka afstöðu til ákæru héraðssak­sókn­ara gegn hon­um vegna rekst­rar fé­lags­ins. Tengda­móðir Sig­urðar var ekki viðstödd þing­fest­ing­una vegna veik­inda.

Í byrj­un fe­brú­ar greindi Frétta­blaðið frá því að fé­lagið væri til rann­sókn­ar hjá skatt­rann­sókn­ar­stjóra og að meint und­an­skot eigna hlypu á hundruðum millj­óna. Þá væru einnig til rann­sókn­ar mik­il van­skil vörslu­skatta. Var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 10. janúar sl.

Fíkniefnainnflutningur einnig til rannsóknar

Sig­urður er einnig grunaður um fíkni­efnainn­flutn­ing, smygl á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni, í Skáksambandsmálinu svonefnda, sem kom upp í janú­ar með umfangsmiklum aðgerðum lögreglu hér á landi.

Var Sigurður þá staddur á Spáni, en kom hingað til lands í fram­hald­inu og var hand­tek­inn. Hann var í upphafi úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins, en síðar gekk úrskurður um fjögurra vikna farbann. Sá úrskurður rennur út á föstudag.

Stefán Karl Kristjánsson, verj­andi hans, fór fram á að úr­sk­urður­ um farbannið yrði felld­ur úr gildi og til vara að hon­um yrði breytt á þann veg að Sig­urði yrði gert að sæta gæslu­v­arðhaldi sama tíma. Því var hafnað.

Haft var eft­ir Stefáni Karli, að betra gæti reynst fyr­ir sak­born­ing að sitja í gæslu­v­arðhaldi en sæta far­banni. Það gæti sett auk­inn þrýst­ing á að rannsókn lyki og ákæra yrði gefin út. Afplánun gæti þar að auki hafist enda kæmi gæslu­v­arðhaldsvist­in til frá­drátt­ar fang­els­is­refs­ing­unni eft­ir að dóm­ur lægi fyr­ir.

Fyrir tæplega mánuði, 26. apríl, var rannsókn Skáksambandsmálsins sögð á lokastigi, en samkvæmt upplýsingum lögreglu lá ekki fyrir hvenær málið yrði sent héraðssaksóknara. Skömmu áður hafði málið verið endursent lögreglu til frekari gagnaöflunar að beiðni héraðssaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert