Sigurður Kristinsson, fyrrverandi eigandi verktakafyrirtækisins SS húsa, neitaði sök að hluta við fyrirtöku máls gegn honum vegna meintra meiri háttar skattalagabrota við Héraðsdóm Reykjaness í dag, en gekkst þó við hluta þeirra brota sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákæru.
Í þeim hluta ákærunnar er Sigurður neitar, eru honum gerð að sök skil á röngum virðisaukaskattskýrslum þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalinn á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga og um leið vanframtalinn virðisaukaskatt.
Sá hluti ákærunnar sem Sigurður gekkst við í Héraðsdómi varðar annars vegar vanskil á virðisaukaskatti á árinu 2015. Hins vegar að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á skilagrein félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna á tilteknu tímabili.
Sigurður var ákærður fyrir skattalagabrotin ásamt tveimur öðrum, en hann er eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem lamaðist á heimili þeirra á Spáni fyrr á þessu ári og var sett í farbann þar í kjölfarið. Því var síðar aflétt og Sunna Elvira er nú stödd hér á landi.
Ásamt Sigurði voru ákærð tengdamóðir hans, móðir Sunnu, sem vann sem bókari og var stjórnarformaður félagsins og arftaki Sigurðar sem stjórnandi félagsins. Neitaði hann sök við þingfestingu málsins. Móðir Sunnu neitaði sök við fyrirtöku málsins í dag.
Við þingfestingu málsins 30. apríl sl. í Héraðsdómi Reykjaness óskaði Sigurður eftir fresti til að taka afstöðu til ákæru héraðssaksóknara gegn honum vegna rekstrar félagsins. Tengdamóðir Sigurðar var ekki viðstödd þingfestinguna vegna veikinda.
Í byrjun febrúar greindi Fréttablaðið frá því að félagið væri til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra og að meint undanskot eigna hlypu á hundruðum milljóna. Þá væru einnig til rannsóknar mikil vanskil vörsluskatta. Var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 10. janúar sl.
Sigurður er einnig grunaður um fíkniefnainnflutning, smygl á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni, í Skáksambandsmálinu svonefnda, sem kom upp í janúar með umfangsmiklum aðgerðum lögreglu hér á landi.
Var Sigurður þá staddur á Spáni, en kom hingað til lands í framhaldinu og var handtekinn. Hann var í upphafi úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins, en síðar gekk úrskurður um fjögurra vikna farbann. Sá úrskurður rennur út á föstudag.
Stefán Karl Kristjánsson, verjandi hans, fór fram á að úrskurður um farbannið yrði felldur úr gildi og til vara að honum yrði breytt á þann veg að Sigurði yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi sama tíma. Því var hafnað.
Haft var eftir Stefáni Karli, að betra gæti reynst fyrir sakborning að sitja í gæsluvarðhaldi en sæta farbanni. Það gæti sett aukinn þrýsting á að rannsókn lyki og ákæra yrði gefin út. Afplánun gæti þar að auki hafist enda kæmi gæsluvarðhaldsvistin til frádráttar fangelsisrefsingunni eftir að dómur lægi fyrir.
Fyrir tæplega mánuði, 26. apríl, var rannsókn Skáksambandsmálsins sögð á lokastigi, en samkvæmt upplýsingum lögreglu lá ekki fyrir hvenær málið yrði sent héraðssaksóknara. Skömmu áður hafði málið verið endursent lögreglu til frekari gagnaöflunar að beiðni héraðssaksóknara.